WOW gæti flutt hluta af starfseminni til Dublin

wow skuli airbus

Keflavíkurflugvöllur er að verða yfirfullur segir forstjóri WOW air sem er að íhuga að opna nýja starfsstöð fyrir flugfélagið í Dublin á Írlandi. Keflavíkurflugvöllur er að verða yfirfullur segir forstjóri WOW air sem er að íhuga að opna nýja starfsstöð fyrir flugfélagið í Dublin á Írlandi.
WOW air flutti ríflega tvöfalt fleiri farþega í fyrra en árið 2015 og spár gera ráð fyrir að umsvifin aukist álíka mikið í ár. Hins vegar telur Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi WOW air, að stærð Keflavíkurflugvallar hamli frekari vexti. „Keflavíkurflugvöllur er að verða gersamlega yfirfullur og það er ein af ástæðum þess að ég verði að horfa út fyrir Ísland. Nema ég sætti mig við óbreytt ástand, en það get ég ekki því þá er eins gott draga sig í hlé,“ segir Skúli viðtali við Irish Independent. Að sögn Skúla koma þrír flugvellir til greina sem ný höfn fyrir WOW air og einn þeirra er Dublin en þangað flýgur WOW air í dag allt árið um kring. Umferðin um Dublinarflugvöll hefur hins vegar aukist töluvert síðustu ár og komu- og brottfarartímar eru því takmarkaðir. Af þeim sökum segist Skúli ekki vera að einblína á hefðbundin morgun og síðdegisflug. 

Útilokar ekki Asíuflug

Ekki kemur fram í grein Irish Independent hvaða tvo aðra flugvelli WOW er að skoða en annar þeirra gæti verið Cork á suðurströnd Írlands sem bætist við við leiðakerfi íslenska lággjaldaflugfélagsins í vor. Þar ætla hins vegar norska flugfélagið Norwegian að stækka hratt á næstunni eftir að félagið fékk grænt ljós á Ameríkuflug frá Írlandi. Ef því verður að WOW air komi sér fyrir á Írlandi þá myndi félagið byrja með því að flytja tvær til þrjár þotur til Dublin en flugvélarnar gætu orðið 17 talsins innan fimm ára. Írskt flugrekstrarleyfi er hins vegar forsenda fyrir þessum flutningi.
Líklegast yrði flugflotinn nýttur í að fljúga milli Írlands og Norður-Ameríku en Skúli útilokar ekki flug til Asíu og til annarra evrópskra borga. Hann segir að von sé á ákvörðun um nýja heimahöfn WOW í sumar og að starfsemin myndi hefjast á næsta ári.