17 prósent Íslendinga heimsótti Bandaríkin á einu ári

newyork loft Troy Jarrell

Miðað við höfðatölu þá eigum við Norðurlandamet í ferðalögum til Bandaríkjanna. Framboð á flugi vestur um haf hefur örugglega mikið að segja. Miðað við höfðatölu þá eigum við Norðurlandamet í ferðalögum til Bandaríkjanna. Framboð á flugi vestur um haf hefur örugglega mikið að segja.
Daglega er flogið frá Keflavíkurflugvelli til nokkurra bandarískra borga og til sumra þeirra eru ferðirnar nokkrar yfir daginn. Það á til dæmis við um New York, Boston og Washington og suma daga fara þotur Icelandair meira að segja tvær ferðir alla leið til Seattle. Farþegar í Kaupmannahöfn, Stokkhólmi, Ósló eða Helsinki hafa ekki úr svona mörgum ferðum eða flugleiðum að moða þegar kemur að Ameríkuflugi. Frá Kaupmannahöfn, fjölförnustu flughöfn Norðurlanda, eru til að mynda farnar áætlunarferðir til 13 bandarískra áfangstaða. Í ár verður hins vegar flogið héðan til 18 bandarískra flugvalla og þar af bætast fjórir við leiðakerfi flugfélaganna á næstu misserum (sjá til hvaða borga er flogið).

154 Íslendingar á dag til Bandaríkjanna

Þessi loftbrú héðan yfir til Bandaríkjanna er svo líklega helsta ástæðan fyrir því að hlutfallslega ferðast mjög margir Íslendingar þangað ár hvert. Í hittifyrra lentu þar ríflega 56 þúsund íslenskir flugfarþegar eða sem samsvarar 17 prósent þjóðarinnar. Það er miklu hærra hlutfall en hjá hinum Norðurlandaþjóðunum þó vissulega hafi dönsku, sænsku, norsku og finnsku ferðamennirnir verið mun fleiri í Bandaríkjunum en Íslendingarnir eins og sjá má á tölum frá ferðamálaráði Bandaríkjanna hér fyrir neðan. Athygli vekur að ferðamannafjöldinn frá Íslandi er ekki mikið minni en samanlagt frá Eystrarsaltslöndunum þremur þó þessar þjóðir telji sex milljónir manna.
Að jafnaði hafa 154 Íslendingar á dag farið til Bandaríkjanna og miðað við flugumferðina héðan þá er hlutfall íslenskra farþega um borð í þotunum sem halda vestur um haf ekki hátt eða innan við tíund á hefðbundnum degi.

Líklega enn hærra hlutfall í fyrra

Ferðamannatölur fyrir árið 2016 liggja ekki fyrir hjá bandarískum ferðamálayfirvöldum en miðað við hversu mikil aukning varð í utanferðum Íslendinga í fyrra og þá fjölgun sem varð í flugi héðan til Bandaríkjanna þá má búast við að íslenskum túristum þar í landi hafi fjölgað umtalsvert á síðasta ári. Hver þróunin verður í ár á eftir að koma í ljós en ljóst er að framboð á flugi vestur um haf mun aukast. Í næsta mánuði fer WOW air til að mynda jómfrúarferð sína til Miami og í byrjun sumars til Pittsburg. Á sama tíma hefur Icelandair flug til Philadelphia og til Tampa í Flórída í september.