Er pláss fyrir Air Canada á morgnana?

aircanada

Stærsta flugfélag Kanada ætlar að hefja flug hingað frá Montreal og Toronto í sumar en segir þó áformin háð samþykki yfirvalda. Stærsta flugfélag Kanada ætlar að hefja flug hingað frá Montreal og Toronto í sumar en segir þó áformin háð samþykki yfirvalda.  
Fyrir rúmum þremur árum síðan var hömlum á flugi milli Íslands og Kanada aflétt og í kjölfarið bauð Icelandair upp á heilsársflug til Toronto, fjölgaði ferðum til Halifax og hóf áætlunarflug til Vancouver og Edmonton. Montreal bættist svo við leiðakerfi íslensku flugfélaganna tveggja í fyrra og WOW flýgur nú líka allt árið til Toronto. Á sama tíma hefur Air Canada setið hjá og reyndar tóku forsvarsmenn þessa stærsta flugfélags Kanada því illa þegar Icelandair boðaði komu sína til Edmonton og vildu meina að flugmálayfirvöld þar í borg hafi greitt götur íslenska flugfélagsins. Nú ætlar hins vegar Air Canada að spreyta sig á Íslandsflugi frá bæði Montreal og Toronto. 

Umsvif íslensku félaganna í Kanada ekki kveikjan

Aðspurður segir Peter Fitzpatrick, upplýsingafulltrúi Air Canada, í svari til Túrista, að það sé ekki óvenjulegt að félagið hefji flug á nýjan stað frá tveimur kanadískum borgum í einu. „Við skiptum áætluninni á nýja áfangastaði stundum með þessum hætti því það getur tekið tíma að koma nýjum flugleiðum í gang. Með þessu getum við boðið upp daglegar ferðir frá Kanada og þar með aukið möguleika farþega okkar á að ferðast þegar þeir vilja.“ Fitzpatrick bætir því við að frá bæði Toronto og Montreal geti farþegar félagsins, til að mynda þeir sem fljúga frá Íslandi, náð tengiflugi til fjölmarga kanadískra og bandarískra áfangastaða. Hann vill þó ekki meina að umsvif íslensku flugfélagana í Kanada séu ástæðan fyrir því að Air Canada ætli að hasla sér völl á Íslandi. „Ísland er mjög spennandi áfangastaður og býður upp á landslag og áfangastaði sem eru heillandi í huga Kanadabúa. Við erum á leiðinni þangað vegna þess að Air Canada hefur verið að bæta við erlendum áfangastastöðum og hafa umsvif félagsins utan Kanada aukist um helming frá árinu 2009.“

Vilja vinsælan brottfarartíma

Í fréttatilkynningunni þar sem Air Canada boðar komu sína til Íslands kemur fram að áformin séu háð samþykki stjórnvalda og segir Fitzpatrick að þarna sé m.a. átt við flugmálayfirvöld. Þess háttar fyrirvarar eru hins vegar sjaldséðir í svona tilkynningum en það vekur einnig athygli að þar segir brottfarir Air Canada frá Keflavíkurflugvelli verði klukkan hálf níu að morgni. En eins og flestum er kunnugt er morgunumferðin frá íslenska flugvellinum mjög þung og til að mynda eru ávallt nokkrar brottfarir á dagskrá á sama tíma á morgnanna yfir sumarmánuðina. Það er því spurning hvort sá fyrirvari sem stjórnendur Air Canada setja við Íslandsflugið sé í raun sá að félagið hafi ekki fengið úthlutaða lendingartíma á Keflavíkurflugvelli ennþá en sé að gera tilkall til hólfs sem nú þegar er þéttsetið eða jafnvel uppbókað. Sala á farmiðum er þó hafin og það stefnir því í ennþá fleiri morgunflug næsta sumar. Hins vegar mun Air Canada notast við þotur sem taka innan við 140 farþega í flugið hingað til lands.