Enginn verðmunur á bílaleigunum í Orlando, Miami eða Tampa

florida lance asper

Brátt verður flogið beint héðan til þriggja borga á Flórídaskaganum og miðað við niðurstöður verðkönnunar þá ætti verðið á bílaleigunum ekki að ráða ferð. Brátt verður flogið beint héðan til þriggja borga á Flórídaskaganum og miðað við niðurstöður verðkönnunar þá ætti verðið á bílaleigunum ekki að ráða ferð.
Það er löng hefð fyrir vetrarferðum Íslendinga til Orlandó enda hefur borgin verið hluti af leiðakerfi Icelandair um árabil. Í lok vetrar hefur WOW air svo áætlunarflug til Miami og í september fer Icelandair jómfrúarferð sína til Tampa. Þar með geta farþegar á Keflavíkurflugvelli valið á milli áætlunarferða til þriggja áfangastaða á Flórídaskaganum í stað eins. Og ætli það sé ekki óhætt að fullyrða að flestir sem leggja leið sína þangað kjósi að hafa bílaleigubíl til umráða nema ferðinni sé heitið í borgarferð til Miami. 

Samstilltar verðskrár

Þó flugtíminni til borganna þriggja sé álíka þá kosta farmiðarnir ekki það sama og það er verðmunur á gistingunni á hverjum stað fyrir sig. Hins vegar eru verðskrár bílaleiganna við flugvellina í Miami, Orlando og Tampa alveg eins samkvæmt athugun Túrista. Síðustu vikuna í apríl nk. (vika 17) þá kostar vikuleiga á millistórum bíl 21.805 kr. á öllum þremur flugvöllunum og fyrir 7 manna bíl þarf að greiða 32.776. Ef ferðinni er hins vegar heitið út í lok nóvember (vika 47) þá kostar miðlungsbíllinn 22.662 við flugstöðvarnar í Miami og Tampa en 22.931 við alþjóðaflugvöllinn í Orlando. Vikulega á sjö manna bíl kostar hins vegar 34.597 kr. á fyrrnefndu stöðunum en 34.771 kr. í Orlandó í lok nóvember. Meiri er munurinn ekki.
Í könnun Túrista var leitarvel Rentalcars notuð en með henni er hægt að bera saman kjör á þekktustu bílaleigunum á hverjum stað fyrir sig. Leitarvélin finnur líka oft mjög hagstæð kjör á bílaleigubílum samkvæmt athugunum Túrista síðustu ár. Rentalcars knýr einnig bílaleiguleitina hér á síðunni.