3391 byssa gerð upptæk í handfarangri

byssur 2015

Aldrei hafa jafn mörg skotvopn fundist á flugfarþegum í Bandaríkjunum og langflestir eru með byssurnar hlaðnar. Aldrei hafa jafn mörg skotvopn fundist á flugfarþegum í Bandaríkjunum og langflestir eru með byssurnar hlaðnar.
Vopnaeftirlitið á bandarískum flugvöllum stendur undir nafni og sérstaklega þeim sem eru í suðurhluta landsins. Þar er nefnilega ekki óalgengt að farþegar séu gripnir með skotvopn innanklæða eða í handfarangri og aldrei hafa jafn margir reynt að fara upp borð vopnaðir líkt og í fyrra. Samkvæmt tölum frá Flugöryggisstofnun Bandaríkjanna þá fannst 3391 byssa við öryggisleit á flugfarþegum í fyrra eða að jafnaði 9 á dag.
Þetta er aukning um 28 prósent frá því í hittifyrra en þetta vafasama met er reyndar bætt á hverja einasta ári. Til að mynda fundust aðeins 660 skotvopn árið 2005 eða fimmfalt færri en í fyrra. Hvort ástæðan fyrir aukningunni skrifist á bætt vopnaeftirlit, almennari byssueign eða kannski hækkandi töskugjöld flugfélaga skal ósagt látið en farþegar sem vilja ferðast með byssur þurfa að pakka þeim sérstaklega og innrita sem farangur. 

Flestir vopnaðir í flug í suðurhluta landsins

Algengast er að farþegar séu gripnir með byssur í þeim fylkjum þar sem leyfilegt er að ganga um með skotvopn innanklæða. Þurfa því fæstir að taka út refsingu fyrir að reyna að smygla vopnum um borð enda bera flestir því við þeir hafi einfaldlega gleymt að taka af sér byssuna áður en þeir innrituðu sig í flugið. 
Af þeim 18 flugvöllum sem flogið er til frá Keflavíkurflugvelli eru það aðeins flugstöðvarnar í Denver, Orlando og Tampa sem komast á lista þeirra 10 flugstöðva þar sem flest vopn eru gerð upptæk.
Það eru hins vegar ekki bara skotvopn sem öryggisverðir á bandarískum flugstöðvum finna því eins og sjá má á myndbandinu hér fyrir neðan.
Hér eru flestir flugfarþegar gripnir með vopn:

Hartsfield-Jackson í Atlanta í Georgíu: 198 byssur
Fort Worth í Dallas í Texas: 192 byssur
George Bush í Houston í Texas: 128 byssur
Phoenix Sky Harbor í Arizona:101 byssa
Denverflugvöllur í Colorado: 98 byssur
Alþjóðaflugvöllurinn í Orlando á Flórída:86 byssur
Nashville flugvöllur í Tennesse:80 byssur
Tampa á Flórída:79 byssur
Bergstrom í Austin í Texas:78 byssur
Salt Lake City í Utah:75 byssur