Vín lokkar til sín færri Íslendinga

vin2

Nokkuð dró úr ferðum Íslendinga til höfuðborgar Austurríkis í fyrra og sérstaklega fækkaði íslenskum hótelgestum í borginni. Nokkuð dró úr ferðum Íslendinga til höfuðborgar Austurríkis í fyrra og sérstaklega fækkaði íslenskum hótelgestum í borginni.
Flugsamgöngur milli Íslands og Austurríkis hafa ávallt verið af skornum skammti og til að mynda er enginn austurrískur áfangastaður hluti af leiðakerfi Icelandair en félagið flýgur í dag til 28 evrópskra flugvalla og stendur undir um helmingi allra flugferða til og frá Keflavíkurflugvelli. WOW air sem er næst umsvifamesta flugfélagið hér á landi býður hins vegar upp á vikulegar brottfarir til Salzburg á meðan á skíðavertíðinni stendur og yfir aðalferðamannnatímabilið fljúga þotur austurrísku flugfélaganna Austrian og FlyNiki hingað frá Vínarborg nokkrum sinnum í viku. Um er að ræða næturflug því vélarnar taka á loft frá Íslandi í kringum miðnætti og lenda árla dags í Austurríki. 

Þriðjungi færri íslenskir hótelgestir

Þrátt fyrir þessar takmörkuðu samgöngur þá lentu 3.844 íslenskir flugfarþegar á flugvellinum í Vínarborg á síðasta ári en þeir voru rúmlega fjögur þúsund í fyrra. Hins vegar varð verulegur samdráttur í kaupum Íslendinga á gistingu í austurrísku höfuðborginni í fyrra því íslenskar gistinætur í Vín voru um 36 prósent færri en árið 2015 eða samtals 10.378 samkvæmt tölum frá ferðamálaráði Vínarborgar. Til samanburðar bókuðu Austurríkismenn tvöfalt fleiri hótelnætur hér á landi á síðasta ári skv. tölum Hagstofu en meirihluti þeirra var á landsbyggðinni.
Grannar þeirra í Sviss eru hins vegar þrisvar sinnum fjölmennari í hópi erlendra hótelgesta hér á landi þrátt fyrir að íbúafjöldinn í þessum tveimur löndum sé nánast sá sami. Flugsamgöngurnar milli Íslands og Sviss eru líka mun meiri því héðan er hægt að fljúga reglulega til Basel, Genfar og Zurich.

Of langt flug?

Sem fyrr segir hafa íslensku flugfélögin ekki lagt áherslu á austurríska markaðinn og helsta ástæðan er líklega sú að það tekur rúma fjóra tíma að fljúga héðan til Vínar en það er aðeins of langt fyrir leiðakerfi félaganna sem byggist á að tengja saman flug milli Evrópu og N-Ameríku á einum sólarhring. Yfir vetrarmánuðina er flugvöllurinn í Innsbruck vinsæll áfangastaður vegna nálægðarinnar við skíðasvæði Alpanna en samkvæmt heimildum Túrista þurfa flugfélög sem fá lendingarleyfi á vellinum að skuldbinda sig til að fljúga líka til borgarinnar yfir sumarmánuðina. Sú kvöð dregur úr áhuga stjórnenda margra flugfélaga sem líta aðeins á Innsbruck sem ákjósanlegan skíðaáfangastað. Það á hugsanlega við um íslensku flugfélögin líka og því hefur íslensku skíðaáhugafólk ekki staðið til boða að fljúga beint héðan til Innsbruck.