Heilsársflug milli Akureyrar og Keflavíkurflugvallar hafið

flugfelag islands

Nú takmarkast beint flug milli Keflavíkurflugvallar og Akureyrar ekki lengur við vikulegar ferðir yfir sumarmánuðina. Nú takmarkast beint flug milli Keflavíkurflugvallar og Akureyrar ekki lengur við vikulegar ferðir yfir sumarmánuðina.
Síðustu ár hafa systurfélögin Flugfélag Íslands og Icelandair boðið upp á stakar ferðir frá Akureyri til Keflavíkurflugvallar yfir hásumarið. Í haust boðuðu forsvarsmenn Flugfélags Íslands hins vegar að nú yrði flugleiðin starfrækt allt árið um kring og flogið allt að sex sinnum í viku yfir vetrarmánuðina. Á sumrin verða ferðirnar tvær í viku.
Í morgun var fyrsta ferðin farin frá Akureyri til Keflavíkurflugvallar og þaðan héldu farþegarnir svo ferðalaginu áfram út í heim. „Það var ánægjulegt að fara í þetta fyrsta flug í nótt og ég er þess fullviss að þessi flugleið á eftir að reynast vel og koma þeim fjölda farþega sem ferðast þarna á milli til góða á komandi árum,“ segir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, í tilkynningu. En líkt og kom fram hér í vikunni þá hefur flugið fengið góðar undirtektir bæði meðal Íslendinga og erlendra ferðaskrifstofa. 

Allir geta nýtt sér ferðirnar

Nú þegar innanlandsflug er í fyrsta skipti í boði frá Keflavíkurflugvelli þá opnast möguleikar á því fyrir ferðamenn að fljúga beint út á land við komuna til Íslands í stað þess að þurfa að fara inn til höfuðborgarinnar fyrst. Farþegar sem fljúga frá Akureyri verða bókaðir í áframhaldandi flug með Icelandair en þeir sem fljúga með öðrum flugfélögum nálgast brottfararspjald sitt á þjónustuborði viðkomandi flugfélags í Keflavík eða með netinnritun, farsímainnritun eða sjálfsafgreiðslu. Farangur farþega er innritaður á Akureyri í áframhaldandi flug frá Keflavík.