Gist á heimili vinar sem þú hefur aldrei hitt

homeexchange mynd

Mikill fjöldi íslenskra meðlima að Home Exchange hefur vakið athygli forsvarsmanna fyrirtækisins sem halda fund hér um helgina fyrir áhugasama um íbúðaskipti. Mikill fjöldi íslenskra meðlima að Home Exchange hefur vakið athygli forsvarsmanna fyrirtækisins sem halda fund hér um helgina fyrir áhugasama um íbúðaskipti.
Í dag eru nærri 900 íslenskir gistikostir á skrá hjá vefsíðunni Home Exchange en þar geta íbúðaeigendur í mismunandi löndum skipt á heimilum sínum í styttri tíma. Skráningum hér á landi hefur fjölgað um nærri fimmtung frá því í haust og þessi mikli áhugi Íslendinga á íbúðaskiptum er kveikjan að heimsókn Alexandra Origet du Cluzeau, upplýsingafulltrúa Home Exchange, hingað til lands. En á sunnudag ætlar hún kynna starfsemi fyrirtækisins í Salnum í Kópavogi og um leið styrkja tengslin við núverandi meðlimi eins og hún orðar það. „Meðlimir okkar eru ekki hefðbundnir ferðamenn því þeir dvelja að jafnaði í tvær vikur á hverjum stað enda þurfa þeir ekkert að borga fyrir gistinguna heldur aðeins fyrir flugið. Þetta er líka hópur sem kýs, oftar en ekki, að ferðast utan háannatíma þegar fargjöldin eru lægri,” segir Alexandra í samtali við Túrista og bætir því að margir fá líka afnot af bílum þegar þeir skipta á heimilum sínum við aðra. „Þetta er því umhverfisvænn ferðamáti því fólk er að nota það sem fyrir er á viðkomandi stað.”

Tvöfalt fleiri vilja til Íslands

Fyrir aðild að Home Exchange eru greiddar 17 þúsund krónur á ári og í staðinn fá íbúðaeigendur aðgang að vefsíðu fyrirtækisins og geta einnig leitað til þjónustufulltrúa ef eitthvað kemur upp. Hins vegar fara engar greiðslur á milli meðlimanna sjálfra. Að sögn Alexandra Origet du Cluzeau aukast möguleikar Íslendinga á að finna heppileg íbúðaskipti hratt því nú setja um 1400 erlendir meðlimir Home Exchange Ísland á lista sinn yfir þá áfangastaði sem þeir vilji heilst heimsækja. Þetta eru tvöfalt fleiri valkostir en fyrir ári síðan og þetta er því enn eitt dæmið um hversu vinsælt ferðamannaland Ísland er orðið.
Lengi vel voru íbúðaskiptin bundin við tvo aðila en með nýju kerfi sem kallast „Passport” þá getur fólk reynt að skipta á íbúðum við þriðja aðilann.

Allt annað en Airbnb

Meðal síauknum umsvifum Airbnb þá hefur heimagistingin orðið vinsæll kostur fyrir ferðafólk en á sama tíma umdeild leið og til að mynda gengu í gildi ný lög um heimagistingu hér á landi um áramótin til að takmarka starfsemina. Aðspurð um skoðun sína á Airbnb segir Alexandra að fyrirtækið hafi verið frumkvöðull í að fá fólk til að sjá kosti þess að deila heimilum sínum. Hins vegar verði ekki horft framhjá því að útbreiðsla Airbnb hafi valdið vanda á leigumarkaði í vinsælum ferðamannaborgum eins og Reykjavík, Berín og Barcelona og heimamenn sjálfir eigi því erfiðara með að finna sér íbúðir en áður. „HomeExchange er allt öðruvísi því þar skiptist fólk á heimilum án endurgjalds. Þetta er eins og að búa heima hjá vini sem þú hefur aldrei hitt,” segir Alexandra að lokum.
Hægt er að tryggja sér frían miða á kynningarfundinn í Salnum á sunnudag hér.