Nærri 7 af 10 segja Trump draga úr áhuga sinn á ferðalögum til Bandaríkjanna

trump

Nýr forseti Bandaríkjanna gæti haft neikvæð áhrif á ferðamannastrauminn vestur um haf frá Íslandi samkvæmt niðurstöðu nýrrar lesendakönnunar. Nýr forseti Bandaríkjanna gæti haft neikvæð áhrif á ferðamannastrauminn vestur um haf frá Íslandi samkvæmt niðurstöðu nýrrar lesendakönnunar.
Breskir og sænskir ferðafrömuðir segjast verða varir við minnkandi áhuga á ferðalögum til Bandaríkjanna eftir að Donald J. Trump tók við lyklavöldum í Hvíta húsinu. Og samkvæmt frétt Economist varð 17 prósent samdráttur i netleitum eftir flugmiðum til Bandaríkjanna í byrjun valdatíðar Trump í samanburði við síðustu daga Barack Obama í embætti. Niðurstöðurnar voru á sama veg hjá flestum þjóðum nema Rússum en áhugi þeirra á Bandaríkjareisum nærri því tvöfaldaðist með nýjum húsbónda í Hvíta húsinu.
Löngun viðskiptaferðalanga til ferðalaga vestur um haf hefur líka dregist saman og í frétt Economist er bent á að 1 prósent samdráttur í vinnuferðum í Bandaríkjunum geti orðið til þess að 71 þúsund stöðugildi myndu hverfa þar í landi. Economist slær þó þann varnagla að erfitt sé að reikna út nákvæm tengsl þarna á milli.
Hvað sem því líður þá sýna niðurstöður nýrrar lesendakönnunar Túrista að 68 prósent lesenda segja að kjör Donald J. Trump og frammistaða hans í forsetaembætti hafi dregið úr áhuga þeirra á ferðalögum til Bandaríkjanna. 32 prósent segja Trump engin áhrif hafa hvað þetta varðar en í heildina bárust 1043 svör.
Þess ber að geta að í könnuninni var ekki gefinn kostur á því að svara að Trump hefði ýtt undir áhugann á ferðalögum til Bandaríkjanna.