Helmingi ódýrari flugmiðar til Alicante

alicante

Þeir sem bóka í dag sumarflug til Alicante gætu fengið mun ódýrari farmiða en þeir sem voru í sömu sporum í hittifyrra. Þeir sem bóka í dag sumarflug til Alicante geta fundið mun ódýrari farmiða en þeir sem voru í sömu sporum í hittifyrra. Talsmaður Norwegian telur að félagið geti fengið fleiri Spánverja til að nýta sér flugið hingað frá borginni.
Frá Íslandi er flogið til ríflega 80 áfangastaða og eins og gefur að skilja getur fámenn þjóð eins og Íslendingar ekki haldið uppi öllu þessu flugi. Bróðurpartur farþeganna eru því erlendir ferðamenn eða skiptifarþegar. Hins vegar hafa sætin í flugvélunum sem fljúga héðan til Tenerife, Kanarí og Alicante aðallega verið skipuð Íslendingum og áætlunarflugið til þessara spænsku áfangastaða hefur verið á vegum íslenskra flugfélaga og ferðaskrifstofa.

Margir Íslendingar búsettir á svæðinu

Á því verður breyting í vor þegar norska lággjaldaflugfélagið Norwegian hefur flug hingað frá Alicante. Astrid Mannion-Gibson, upplýsingafulltrúi Norwegian, segist í svari til Túrista ekki vera í vafa um að hægt sé að fá fleiri íbúa Alicante til að ferðast til Íslands. „Alicante hérað er fimmta fjölmennasta svæði Spánar með 1,8 milljónir íbúa og auk þess búa 2,7 milljónir manna í innan við klukkutíma akstursfjarlægð frá flugvelli borgarinnar. Það er því góður grundvöllur fyrir því að auka umferð frá Spáni til Íslands.“ Astrid Mannion-Gibson bætir því við að Norwegian sé þekkt flugfélag í Alicante og hafi um milljón farþegar flogið með flugfélaginu þaðan í fyrra sem var aukning um nærri fimmtung frá árinu á undan. „Við ættum því að geta fengið fleiri Alcante-búa til að heimsækja Ísland. Einnig má benda á að 45 prósent þeirra nærri 1400 Íslendinga sem eru með lögheimili á Spáni búa einmitt á Alicante svæðinu og því ferðast margir Íslendingar þangað.“

Primera og WOW hafa lækkað

Síðustu ár hafa WOW air og Primera Air verið ein um áætlunarferðirnar til Alicante og sala á farmiðum félaganna hófst fyrir nokkur síðan á meðan Norwegian var að hefja sölu á flugi sínu til Alicante. Það er líklega helsta skýringin á þeim verðmun sem er í dag á farmiðaverði Norwegian og hins vegar Primera Air og WOW. Eins er framborð á ódýrum dagsetningum mun meira hjá norska flugfélaginu. Eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan þá kostar ódýrasta farið með Norwegian, báðar leiðir með farangri, um 28 þúsund í júní en um 39 þúsund hjá WOW og 41þúsund hjá Primera Air.
Sumarfargjöld síðarnefndu flugfélaganna eru hins vegar í dag um helmingi lægri en þau voru í ársbyrjun 2015. Þá kostaði ódýrasti farmiðinni í júní það ár 68 þúsund hjá Primera en 63 þúsund hjá WOW samkvæmt verðkönnun sem Túristi frá því í janúar 2015.