Auglýst eftir sérfræðingi til að sinna eftirliti með heimagistingu

reykjavik Tim Wright

80 einstaklingar hafa fengið leyfi fyrir heimagistingu en um áramót gengu í gildi ný lög um skammtímaleigu á íbúðahúsnæði. 80 einstaklingar hafa fengið leyfi fyrir heimagistingu en um áramót gengu í gildi ný lög um skammtímaleigu á íbúðahúsnæði og nú er óskað eftir starfsmanni til að sinna skráningu og eftirliti.
Nú takmarkast skammtímaleiga á íbúðahúsnæði við 90 daga á ári og tekjur af leigunni mega ekki fara yfir 2 milljónir á tímabilinu. Skipta má þessum 90 dögum milli tveggja eigna, til dæmis íbúðarhúsnæði og sumarbústaðar en skrá verður allar gistingar samkvæmt nýjum lögum um heimagistingu sem tóku gildi um áramót. Það er Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu sem sér um skráningar og annast eftirlit með heimagistingu og auglýsir embættið nú eftir sérfræðingi í verkið. Á viðkomandi meðal annars að sinna rafrænu eftirlit með skráningarskyldum aðilum á landsvísu og undirbúa stjórnsýslumál í samráði við lögfræðinga embættisins samkvæmt því sem segir í atvinnuauglýsingu.
Hámarkssekt vegna brota á lögum um heimagistingu nemur einni milljón króna en líkt og Túristi greindi frá þá er líka tekið við ábendingum um brot frá almenningi.

Heilbrigðisvottorðið er flöskuháls

Í dag hafa 80 einstaklingar fengið úthlutuð leyfisnúmer hjá Sýslumanni og eru nöfn þeirra birt á vefnum Heimagisting.is. Samkvæmt nýju reglunum er leigusölum skylt að birta leyfisnúmerin í allri markaðssetningu og kynningarstarfsemi m.a. á bókunarvefjum eins og Airbnb. Nærri fjögur þúsund íbúðir, herbergi eða hús voru á lista hjá Airbnb hér á landi þegar bandaríska fyrirtækið gaf síðast upplýsingar um umsvif sín á Íslandi. Túristi hefur óskað reglulega eftir nýjum tölum frá upplýsingafulltrúa fyrirtækisins en ekki fengið.
Hver sem fjöldi íslenskra gistikosta er í dag á skrá Airbnb þá er ljóst að aðeins lítill hluti leigusala hefur sótt um skráningu. Krafa um vottun heilbrigðisnefnda skýrir að einhverju leyti þessar fáu skráningar því líkt og kom fram í frétt RÚV þarf að skoða hverja einustu eign sem sótt er um leyfi fyrir. Samkvæmt upplýsingum frá umhverfisráðuneytinu stendur hins vegar til að fella niður skilyrðið um vottun heilbrigðisnefnda í nýju frumvarpi sem lagt verður fyrir á næstunni. Í framhaldinu yrði starfsemin einungis skráningarskyld í stað þess að leita þurfi sérstaks leyfis frá stjórnvöldum. 

Skráningin verður margfalt ódýrari

Með þessum breytingum verður það líka mun ódýrara fyrir einstaklinga að skrá íbúðir sínar því í dag kostar vottorð frá heilbrigðisnefnd, fyrir heimagistingu, hátt í 50 þúsund krónur. Við þann kostnað bætist árlegt 8 þúsund króna skráningargjald til Sýslumanns og 560 kr. til Þjóðskrár. Þess má geta að heilbrigðisvottorð fyrir gistiheimili kostar litlu meira en fyrir eitt herbergi í heimagistingu.
Niðurfelling kröfunnar um heilbrigðisvottorð gerir því skráningu á heimagistingu ekki aðeins einfaldari heldur líka mun ódýrari. Það er hins vegar athyglisvert að stuttu eftir að ný lög öðlast gildi þá þarf að gera á þeim veigamiklar breytingar og á meðan eru þúsundir eigna hér á landi leigðar til ferðamanna út til án tilskilinna leyfa.