Tíunda besta árið í innanlandsflugi frá aldarmótum

flugtak 860 a

Þriðja árið í röð fjölgaði farþegum á Reykjavíkurflugvelli og út á landi. Þróunin í innanlandsflugi er hins vegar allt önnur en í millilandaflugi. Þriðja árið í röð fjölgaði farþegum á Reykjavíkurflugvelli og út á landi. Þróunin í innanlandsflugi er hins vegar allt önnur en í millilandaflugi.
Nærri 750 þúsund farþegar nýttu sér innanlandsflug um íslenska áætlunarflugvelli í fyrra og hefur þeim fjölgað árlega frá 2012. Sem fyrr fara langflestir farþeganna um Reykjavíkurflugvöll eða liðlega helmingur samkvæmt tölum á heimasíðu Isavia, rekstraraðila flugvallanna. Ef litið er til þróunarinnar frá aldarmótum kemur í ljós að árið í fyrra var það tíunda besta í innanlandsfluginu út frá fjölda farþega. Á sama tímabili hefur farþegafjöldinn á Keflavíkurflugvelli nærri fimmfaldast og fóru um 6,8 milljónir um Flugstöð Leifs Eiríkssonar á síðasta ári. Farþegar í millilandaflugi voru s.s. sex milljónum fleiri en í innanlandsfluginu í fyrra en til samanburðar var munurinn á þessu tvennu 565 þúsund farþegar árið 2000.

Breytingar í næstu viku

Á meðan allar þoturnar sem taka á loft frá Keflavíkurflugvelli taka stefnuna á útlönd þá er innanlandsflug stór hluti af starfsemi alþjóðaflugvallanna í löndunum í kringum okkur. Þar geta farþegar því flogið beint út á land í tengslum við millilandaflug. Þetta hefur ekki verið hægt hér á landi nema stöku sinnum yfir sumartímann og þessi skortur á tengingu kann að skýra afhverju farþegum í innanlandsflugi hefur fækkað frá því að ferðamannastraumurinn hingað tók kipp árið 2011.
Það eru hins vegar breytingar framundan því á föstudaginn mun Flugfélag Ísland hefja reglulegt flug milli Akureyrar og Keflavíkurflugvallar og þá opnast möguleiki á því fyrir erlenda ferðamenn að fljúga beint norður í land við komuna til landsins. En líkt og Túristi greindi frá þá telja forsvarsmenn ferðamála á hinum Norðurlöndunum að tenging innanlandsflugs og millilandaflugs sé mikilvæg fyrir þeirra markaði. 
Með þessari nýju flugleið styttist líka ferðatíminn fyrir Norðlendinga út í heim því þeir þurfa ekki lengur að keyra 430 km að Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða fljúga fyrst til Reykjavíkurflugvallar til að komast í millilandaflug. Þannig getur farþegi sem flýgur með morgunfluginu frá Akureyri verið kominn til Glasgow rúmum fimm tímum síðar og þingmaður sem búsettur er á Akureyri nær hádegisfundi í Brussel jafnvel þó hann sofi heima hjá sér en ekki á hóteli fyrir sunnan.