Forstjóri Icelandair Group boðar töskugjald

Nú verður innrituð taska ekki lengur hluti að grunnfargjaldi Icelandair.

kef taska 860

Hagnaður Icelandair Group á síðasta ár nam 89,1 milljónum dollara sem samsvarar rúmum 10 milljörðum króna miðað við gengi dagsins. Þetta er næst besta afkoma fyrirtækisins í 80 ára sögu þess samkvæmt tilkynningu frá félaginu nú í kvöld. Þrátt fyrir góðan gang á síðasta ári þá boðar Björgólfur Jóhannsson, forstjóri, breytingar í rektri félagsins til að takast á við þau neikvæðu teikn sem eru á lofti og tilgreind voru í afkomuviðvörun félagsins í síðustu viku. En í kjölfar hennar féll hlutabréfaverð Icelandair og hefur það farið áfram lækkandi í gær og í dag.

Ætla að ná til nýrra viðskiptavina

Harðandi samkeppni, færri bókanir og lækkandi fargjöld eru meðal þess sem stjórnendur Icelandair segja að einkenni reksturinn nú í byrjun árs og haft er eftir Björgólfi í tilkynningu kvöldsins að Icelandair muni gera breytingar á uppbyggingu fargjalda á öðrum ársfjórðungi til að mæta aukinni samkeppni. „Markmið breytinganna er að ná til nýrra viðskiptavina, auka sýnileika félagsins í leitarvélum gagnvart tilteknum markhópum og breikka tekjugrunn félagsins. Meðal annars verða kynnt ný fargjöld þar sem viðskiptavinur getur valið að sleppa þjónustuþáttum sem eru innifaldir í dag og greiða fyrir þá þjónustu sem hann velur sjálfur, svo sem farangursheimildir,“ segir í ársreikningi sem birtur var í kvöld. Þar er einnig boðað fjölbreyttara vöruframboð, hagstæðari fargjöld á viðskiptafarrými auk fleiri breytinga.

Fara troðna slóð

Þar með er ljóst að Icelandair bætist í hóp sífellt stækkandi hóp flugfélaga sem rukka farþega aukalega fyrir innritaðan farangur en líkt og kom fram í úttekt Túrista þá rukkuðu 12 af þeim 20 flugfélögum sem flugu til og frá Keflavíkurflugvelli, síðastliðið sumar, fyrir töskur.
Fljótlega kemur svo væntanlega í ljós hvort Icelandair ætli einnig að fara fram á aukagreiðslur fyrir val á sætum, óáfenga drykki, matarbakka fyrir börn, aðgang að afþreyingarkerfi og fleira sem í dag er innifalið í grunnfargjaldi félagsins.