Nokkrir íslenskir flugfarþegar stöðvaðir í hverri viku

Mörg lönd gera kröfu um að vegabréf ferðamanna séu í gildi í lengri tíma eftir að heimsókn lýkur. Þessi regla setur reglulega strik í ferðaplön ófárra Íslendinga.

vegabref 2

Landamæraeftirlit hefur verið hert víðs vegar í heiminum og nú krefjast fleiri ríki þess að vegabréf ferðamanna séu gild í annað hvort 3 eða 6 mánuði frá þeim degi sem þeir yfirgefa viðkomandi land. Þannig verður Íslendingur á leið frá Kína eða Taílandi þann 1. mars nk. að vera með vegabréf sem gildir að lágmarki fram í byrjun september.
Þessar kröfur koma reglulega aftan að íslenskum ferðalöngum því vikulega koma upp nokkur tilvik þar sem íslenskum farþegum er ekki hleypt um borð í tengiflug, til að mynda frá meginlandi Evrópu til Asíu eða Afríku, vegna þess vegabréf viðkomandi rennur út eftir of stuttum tíma samkvæmt upplýsingum frá borgararþjónustu utanríkisráðuneytisins.

Á ábyrgð farþeganna sjálfra

Farþegarnir komast nefnilega frá Íslandi til Evrópu þó gildistími vegabréfsins sé stuttur og því kemur vandamálið fyrst upp þegar fara á um borð í flugvélina sem flýgur til þess lands þar sem krafa er gerð um lengri gildistíma ferðaskilríkja. Áður fyrr gátu íslensk sendiráð og ræðismenn framlengt vegabréf en í árslok 2015 tóku í gildi reglur sem kveða á um að þess háttar skilríki eru ekki lengur gild. Það er því ekkert hægt að gera til að aðstoða farþega með of gömul vegabréf og flugfélögum ber ekki skylda til að endurgreiða farmiða sem ekki nýtast vegna svona mála. Það eru því allar líkur á að farþeginn sitji uppi með tjónið og geti ekki haldið ferðalaginu áfram samkvæmt því sem Túristi kemst næst. En eins og gefur að skilja kostar farmiði frá Evrópu til Asíu í langflestum tilfellum tugi þúsunda.
Það eru helst lönd í Asíu og Afríku þar sem reglur kveða á um að vegabréf ferðamanna séu gild í lengri tíma eftir að þeir eru farnir frá landinu en Bandaríkin gera það einnig. Hins vegar getur enginn heimsótt Bandaríkin án þess að hafa fengið ESTA ferðaheimild og hún er bara veitt ef gildistími vegabréfsins er nægjanlega langur.
Sjá nánari upplýsingar á vef borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins