Á að velja Basic, Biz eða XXL?

Það eru margir kostir í stöðunni fyrir þá sem ætla að fljúga með WOW air út í heim.

Farþegar WOW air geta nú valið á milli þriggja tegunda af fargjöldum í stað einnar eins og áður tíðkaðist. Grunntýpan kallast „Basic“ og sá sem kaupir hana fær aðeins farmiða en má aðeins taka með litla tösku sem kemst undir sætið fyrir framan. Farþegi sem velur „Plus“ fargjald getur gengið um borð með hefðbundna handfarangurstösku og innritað farangur að auki. Máltíð og sæti með meira fótarými bætist svo við þá þjónustu sem fæst ef viðskiptafargjaldið, „Biz“, er bókað. Forfallatrygging er líka innifalin fyrir þá sem bóka síðarnefndu tegundirnar.
Með þessum breytingum verður fyrirkomulagið hjá WOW álíka og hjá evrópskum lággjaldaflugfélögum en Ryanair, sem er þeirra stærst, hóf til að mynda nýverið að bjóða upp á sérstök viðskiptafargjöld þar sem farþegar geta meðal annars breytt ferðaáætlun sinni og fengið forgang í öryggisleit á flugvöllum. Hins vegar þarf alltaf að borga fyrir matinn hjá Ryanair og það sama á við um Norwegian en forfallavernd, líkt og WOW býður, er vanalega ekki hluti af fargjöldum evrópskra flugfélaga. Flest þeirra bjóða hins vegar farþegum sem kaupa millifargjaldið að velja sér sæti um borð en fyrir það þarf að borga aukalega hjá WOW og kostar það að lágmarki 699 kr.

Stundum hagstæðara að borga fyrir töskuna

Verðmunurinn á flokkunum þremur hjá WOW air er mismunandi á milli daga og áfangastaða en virðist í flestum tilvikum vera það mikill að það borgar sig fyrir farþega, sem ætlar aðeins taka með sér eina handfarangurstösku, að bóka einfaldlega ódýrasta fargjaldið og bæta svo við farangursheimildinni. Að því gefnu að forfallaverndin vegi ekki þungt í huga viðkomandi. Samkvæmt lauslegri athugun Túrista þá er verðbilið á milli „Basic“ og „Plus“ fargjaldanna nefnilega oftast um helmingi hærra en handfarangursgjaldið er, bæði í flugi til Evrópu (frá 1.999 kr.) og til N-Ameríku (frá 3.999). Ef farþeginn vill hins vegar innrita farangurinn þá gæti millifargjaldið orðið hagstæðasti kosturinn en það er þó ekki algilt. Það virðist nefnilega oft vera um þrjú til fimm þúsund króna bil frá „Basic“ og upp í „Plus“ á styttri Evrópuleiðum en það kostar 3.999 kr að innrita tösku í þannig flug.

Maturinn í kaupbæti fyrir þá sem vilja fótapláss og farangur

Sem fyrr segir þá fá farþegar sem bóka dýrasta fargjaldið hjá WOW að sitja í þeim sætum þar sem fótarýmið er mest og eins fá þeir veitingar um borð. Eins og fargjöldin hjá WOW eru í dag þá borgar sig að bóka þetta svokallaða „Biz“ fargjald ef farþeginn vill fá að velja sér sæti í fremstu röðunum og líka innrita farangur. Viðkomandi fær þá eiginlega flugvélamatinn í kaupbæti því sæti af tegundinni XXL kostar að lágmarki 2.999 kr. hvora leið og 5.999 kr. ef flogið er yfir á vesturströnd Bandaríkjanna með WOW.