10 ferðir á dag til London

london oxfordstraeti

Í febrúar nær fjöldi breskra ferðamanna hér á landi hámarki og þá fjölgar flugferðunum héðan til Lundúna umtalsvert.
Þeir sem flugu frá Keflavíkurflugvelli til höfuðborgar Bretlands í síðasta mánuði höfðu að jafnaði úr 9,6 brottförum á dag að velja eða tveimur fleiri en í febrúar í fyrra. Aukningin nemur um fimmtungi á milli ára samkvæmt talningum Túrista en London er sem fyrr sú borg sem langoftast er flogið til Keflavíkurflugvelli eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan. Samkeppnin á þeirri flugleið er líka meiri en á nokkurri annarri frá Íslandi enda bjóða fimm flugfélög upp á áætlunarferðir héðan til flugvallanna á Lundúnarsvæðinu. Auk þess efnir ein bresk ferðaskrifstofa til reglulegra ferða hingað frá London og Manchester yfir vetrarmánuðina. Íslandferðir eru nefnilega mun vinsælli meðal Breta yfir veturinn en á sumrin. Til að mynda komu fleiri breskir ferðamenn hingað í febrúar í fyrra en samtals í júlí og ágúst.
Líkt og áður er Kaupmannahöfn sú borg sem næst oftast er flogið til héðan en Ósló sem var þriðji algengasti áfangastaður flugvélanna sem tóku á loft frá Keflavíkurflugvelli í febrúar í fyrra er núna komin aftur fyrir bæði New York og París á listanum hér fyrir neðan.