Opna 500 ný hótelherbergi í Stokkhólmi í vikunni

atsix hobo

Í vikunni tékka fyrstu gestirnir sig inn á tvö ný hótel sem opna í sama húsi í miðborg Stokkhólms. 
Í höfuðborg Svíþjóðar fjölgar ferðamönnum jafnt og þétt og þar opna því reglulega ný hótel. Flest hver á vegum stærstu norrænu hótelkeðjanna og oft í útjaðri borgarinnar. Í þessari viku bætast hins vegar við tvö systurhótel í miðborginni með samtals um 500 herbergi. Það fínna kallast At Six og er lúxushótel á meðan Hobo er einfaldari gististaður.
Aðspurð um hvort það er pláss fyrir svona mikla viðbót við hótelmarkaðinn í Stokkhólmi bendir Jenny Edh Jansen, markaðsstjóra hótelanna, á að til borgarinnar komi margir ólíkir hópar af ferðamönnum. „Hótelflóran í Stokkhólmi er fjölbreyttari en í hinum norrænu höfuðborgunum sem er ástæða þess að borgin lokkar til sín fleiri ferðamenn. Vinsældir Stokkhólms sem áfangastaðar vaxa líka ár frá ári og það er mikil eftirspurn eftir hótelrýmum.“

Blása lífi í daufan hluta miðborgarinnar

Jenny Edh Jansen, segist vonast til að At Six og Hobo geti boðið upp á nýja upplifanir í sænsku höfuðborginni. Á At Six er markmiðið, að hennar sögn, að höfða til þeirra sem vilja búa á mjög góðu og líflegu hóteli með áhugaverðum veitingastöðum, börum, fallegum herbergjum og framúrskarandi þjónustu. Á Hobo segir Jansen að herbergin séu mjög vel skipulögð og falleg en á því hóteli eru sameiginlegu rýmin í aðalhlutverki því þar er ætlunin að hótelgestir og heimamenn komi saman á alls kyns viðburðum, t.d. listsýningum og tónleikum.
Hótelin tvö verði til húsa við Brunkenbergstorg sem er rétt við Hamngatan, helstu verslunargötu borgarinnar og skammt frá Gamla stan. Brunkenbergstorg er í dag frekar daufur hluti af miðborginni, sérstaklega eftir að allir kontoristarnir halda heim úr vinnunni. Nú eiga sér hins vegar stað miklar framkvæmdir á svæðinu og til að mynda er verið að endurreisa að hluta til verslunarmiðstöðina Gallerian í næst húsi við nýju hótelin tvö.

Tilboð á gistingunni í byrjun

Þeir sem eru á leið til Stokkhólms á næstunni og vilja búa á splunkunýju hóteli í miðri borginni mega gera ráð fyrir að nóttin á At Six kosti að að minnsta kosti tæpar 20 þúsund krónur en um 11 þúsund á Hobo. Samkvæmt athugun Túrista hækka verðið þónokkuð í maí og í sumar. Fyrstu um sinn eru þó sérstök tilboð í boði, til að mynda 25% afsláttur af gistingunni um páskana á At Six og þeir sem bóka fyrir 31.mars fá sama afslátt og frían morgunmat á Hobo.

Frá fimmtudegi til sunnudags er hægt að fá ódýrara far með Arlanda Express hraðlestinni frá flugvellinum og niður í bæ. Sjá hér