Áfram minnkar vægi íslenskra farþega Icelandair

Farþegafjöldinn hjá Icelandair hefur ríflega tvöfaldast síðustu 10 ár og hlutfall Íslendinga um borð fellur jafnt og þétt í takt við þessu auknu umsvif.

icelandair 767 757

Það lætur nærri að áttunda hvert sæti í þotum Icelandair sé skipað farþega sem byrjar ferðalagið á Íslandi. Hinir farþegarnir eru annað hvort ferðamenn á leið til landsins eða skiptifarþegar. Fyrir áratug síðan var skiptingin á milli þessara þriggja farþegahópa mjög jöfn en hallað hefur á þann íslenska síðustu ár eins og sjá má á súluritinum hér fyrir neðan. Helsta skýringin á þessari breytingu liggur í hröðum vexti Icelandair og litlum heimamarkaði. Félagið flutti til að mynda um 3,7 milljónir farþega í fyrra en þeir voru 1,6 milljónir árið 2007.

Íslenskum farþegum fækkað um 34 þúsund

Aukin samkeppni í flugi til og frá landinu hefur líka sitt að segja eins og sést þegar rýnt er í ársskýrslur Icelandair. Árið 2007 hafa 512 þúsund farþegar Icelandair komið frá heimamarkaðnum en sá hópur taldi 478 þúsund farþega í fyrra. Íslensku farþegunum hefur því fækkað um 34 þúsund síðastliðinn áratug en á sama tíma hefur heildarfarþegafjöldinn hjá Icelandair aukist um rúmlega tvær milljónir. Til samanburðar má nefna að árið 2007 voru það eingöngu Icelandair og Iceland Express sem buðu upp á heilsársflug til og frá Íslandi og yfir sumarmánðina bættist við Íslandsflug frá þremur erlendum flugfélögum. Síðastliðið sumar stunduðu hins vegar 19 erlend flugfélög Íslandsflug yfir sumarmánuðina og þeim fer áfram fjölgandi í ár.