Bjóða afslátt á farþegagjöldum Keflavíkurflugvallar

Þó farþegafjöldinn á Keflavíkurflugvelli hafa margfaldast síðustu ár þá eru ennþá dagspartar þar sem fáir eru á ferðinni. Úr því vilja forsvarsmenn Isavia bæta með sérstökum afslætti á vannýttum tímum.
Milli klukkan 6 og 9 á morgnana taka á loft frá Keflavíkurflugvelli tugir flugvéla á vegum Icelandair og WOW air sem langflestar taka stefnuna í átt til Evrópu. Þoturnar koma tilbaka um miðjan dag og halda svo vestur um haf seinnipartinn. Á þessum tveimur tímabilum dagsins eru varla lausir brottfarartímar fyrir erlendu flugfélögi. En líkt og Túristi greindi frá þá þurftu forsvarsmenn Air Canada að breyta dagskrá Íslandsflugs félagsins næsta sumar vegna skorts afgreiðslutímum við Flugstöð Leifs Eiríkssonar á þessum háannatímum.

Jafngildir fjórðungs afslætti á veturna

Yfir sumarmánuðina eru líka mörg flug á dagskrá upp úr miðnætti og er það þriðja tímabil sólarhringsins þar sem varla er hægt að bæta við fleiri ferðum. Hins getur verið tómlegt um að litast í flugstöðinni frá tíu á morgnana og fram yfir hádegi og aftur í kringum kvöldmat og fram til klukkan tíu. Af þeim sökum býðst nú þeim flugfélögum sem bóka brottfarir á þessum dagspörtum sérstakur 5 evru afsláttur á farþegagjaldi Keflavíkurflugvallar. Það jafngildir 580 krónum eða fjórðungi af 2.265kr gjaldinu sem Isavia rukkar fyrir hvern farþega yfir vetrarmánuðina. Á sumrin er farþegagjaldið hærra eða 3.215 kr. en minna fyrir skiptifarþega.

Góðar undirtektir hjá flugfélögunum

Að sögn Guðna Sigurðsson, talsmanns Isavia, er ástæðan fyrir þessu nýja afsláttarkerfi sú að forsvarsmenn flugvallarins telja að hægt sé að nýta innviði Keflavíkurflugvallar betur með dreifðu álagi. „Það skilar sér líka í betri þjónustu við farþega í flugstöðinni að dreifa álagi með þessum hætti“. Að sögn Guðna hafa flugfélögin sýnt afslættinum mikinn áhuga og eru þegar farin að nýta sér hann.
Samkvæmt athugun Túrista eru það helst SAS, Norwegian, British Airways og easyJet, sem fljúga frá Íslandi eftir að það hægist á morguntraffíkinni á vegum íslensku flugfélaganna. Icelandair býður hins vegar upp á flug til Toronto, Washington, Boston og New York klukkan hálf ellefu á morgnana frá vori og fram á haust. Á seinni afsláttartímabilinu, frá kl. 18 til 22, eru fjöldamargar brottfarir á vegum Wizz Air auk ferða með Finnair, SAS, Norwegian og easyJet. Eins fljúga breiðþotur WOW air til Miami og San Francisco um kvöldmatarleytið.
Það eru því töluvert í boði fyrir þá sem vilja heldur ferðast á þeim tímum þar sem biðraðri við innritunarborð og vopnaleit eru styttri en farþegar á Keflavíkurflugvelli eiga orðið að venjast, til að mynda í morgunsárið.