Ráðherrar boða hærri skatta og gjöld á ferðaþjónustu en hvað með allt hitt?

Í gær viðraði forsætisráðherra þá hugmynd að ferðaþjónustan yrði færð úr lægra þrepi virðisaukaskatts og upp í það efra. Í þarsíðustu viku boðaði ráðherra ferðamála líka auknar álögur á ferðaþjónustuna en ekki þær sömu og forsætisráðherra.
Forsvarsmenn ferðamála í Danmörku hafa lengi verið ósáttir við að búa við mun hærri virðisaukaskatt en löndin í kring. Í Danmörku er hins vegar 25% virðisaukaskattur lagður á allar vörur og þjónustu og engin lægri skattþrep eru í boði öfugt við það tíðkast hér á landi. Á fundi með dönskum hótelstjórum nýverið sagði skattaráðherra landsins að hann efaðist ekki um neikvæð áhrif þess að vera með hærri skatt á gistingu en hinum megin við Eyrarsund þar sem sænska ríkið leggur helmingi minna (12 prósent) ofan á hótelreikningana og líka á veitingahúsaheimsóknir.

Hér á landi borga hótelgestir 11 prósent virðisaukaskatt auk sérstaks gistináttagjalds sem hækkar úr 100 krónum á hverja nótt upp í 300 krónur í haust. Þar með verður hlutfall opinberra gjalda af verði hefðbundins hótelherbergis í Reykjavík um 13% en samkvæmt samanburði bókunarsíðunnar Trivago kostar tveggja manna herbergi í höfuðborginni um 23 þúsund krónur. Aðeins í Monte Carlo og Genf borgar ferðafólk meira fyrir næturstað þessi misserin og hefur Reykjavík skotist upp listann yfir dýrustu ferðamannaborgirnar Evrópu samfara styrkingu krónunnar.

Staða Íslands við topp listans mun styrkjast ef sú stefna sem Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, boðaði í gær, á fundi Samtaka atvinnulífsins, verður að veruleika. Þar nefndi hann þann möguleika að færa ferðaþjónustuna upp í efra þrep virðisaukaskatts og um leið lækka þrepið úr 24 prósentum niður 22,5 prósent. Með þessum breytingum myndi t.d. reykvíska hótelherbergið, sem í dag kostar 23 þúsund, hækka um 2500 krónur og ofan á það bætist svo 300 króna gistináttagjald. Þess háttar gjald er ekki lagt á í Danmörku. Og vissulega myndi margt fleira hækka í verði vegna þessarar breytingar.

Hækkun virðisaukaskatts eru hins vegar ekki einu álögurnar sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa boðað á ferðaþjónustuna síðustu daga. Í ræðu Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ráðherra ferðamála, á Ferðaþjónustudeginum í þarsíðustu viku kom fram að til skoðunar væri að taka upp þjónustusérleyfi fyrir þau fyrirtæki sem „sem stunda útgerð inn á náttúruperlur í opinberri eigu“. Ferðamálaráðherrann hefur einnig talað fyrir gjaldtöku landeiganda og Jón Gunnarsson, samgönguráðherra, hefur boðað vegatolla sem hann segir meðal annars vera tilkomna vegna ferðamannastraumsins.

Í ljósi hugmynda ráðherranna um auknar álögur á ferðamenn má rifja upp það sem stóð um ferðaþjónustuna í stjórnarsáttmálunum sem kynntur var í byrjun árs. Þar sagði m.a.: „Á næstu árum verður lögð áhersla á verkefni sem stuðla að samhæfðri stýringu ferðamála, áreiðanlegri gagnaöflun og rannsóknum, náttúruvernd, aukinni arðsemi greinarinnar, dreifingu ferðamanna um land allt og skynsamlegri gjaldtöku, t.d. með bílastæðagjöldum.“
Miðað við þær hugmyndir sem ráðherranir hafa lagt fram í málefnum ferðaþjónustunnar er ljóst að þeir hafa lagt áherslu á það síðastnefnda á listanu, þ.e. gjaldtökunni. Forsvarsmenn ferðaþjónustunnar hljóta hins vegar að bíða óþreyjufullir eftir stefnu stjórnarinnar þegar kemur að öllum hinum atriðunum á verkefnalista ríkisstjórnarinnar í málefnum atvinnugreinarinnar.