Fá ekki auglýsta brottfarartíma á Keflavíkurflugvelli fyrir Kanadaflug

aircanada

Forsvarsmenn Air Canada ætluðu sér að fljúga frá Íslandi í morgunsárið en þeim varð ekki að óska sinni. Samt hefur félagið ekki ennþá breytt flugáætluninni á heimasíðu sinni. Forsvarsmenn Air Canada ætluðu sér að fljúga frá Íslandi í morgunsárið en þeim varð ekki að óska sinni. Samt hefur félagið ekki ennþá breytt flugáætluninni á heimasíðu sinni.
Í sumarbyrjun mun Air Canada hefja flug hingað til lands frá bæði Montreal og Toronto í samkeppni við Icelandair og WOW. Þessi áform voru kynnt í tilkynningu frá þessu stærsta flugfélagi Kanada byrjun febrúar og þar sagði að vélar félagsins myndu fljúga frá Íslandi klukkan hálf níu að morgni alla daga vikunnar að fengnu samþykki yfirvalda. Sala á farmiðum hófst á sama tíma.
En líkt og Túristi greindi frá í kjölfarið þá er morguntraffíkin frá Keflavíkurflugvelli þung og nokkrar brottfarir á dagskrá á nákvæmlega sama tíma og Air Canada auglýsti fyrir sínar brottfarir frá Íslandi til Kanada. Og samkvæmt upplýsingum frá Isavia þá fékk kanadíska flugfélagið ekki umbeðna brottfarartíma en úthlutun þeirra er á borði sjálfstæðs samræmingarstjóra en ekki Isavia líkt og reglur EES gera ráð fyrir.

Voru á biðlista

Þrátt fyrir að þetta hafi legið fyrir þá hafa forsvarsmenn Air Canada ekki breytt áætlun Íslandsflugsins á heimasíðu sinni og sá sem bókar far með félaginu í dag til Kanada gengur út frá því að brottför verði frá Keflavíkurflugvelli klukkan 8:30. Túristi hefur beðið um skýringar á ósamræminu hjá upplýsingafulltrúa Air Canada en hefur ekki fengið viðbrögð fyrr en nú. Í svari félagsins segir að upphaflega flugáætlunin hafi gert ráð fyrir lendingu á Keflavíkurflugvelli klukkan tíu mínútur í sjö að morgni og brottför klukkan hálf níu. Flugélagið hafi verið á biðlista eftir þessum tímum en nú þegar ljóst er að tímarnir verði ekki lausir muni uppfærð flugáætlun birtast á heimasíðu Air Canada í vikunni. Samkvæmt henni munu þotur kanadíska flugfélagsins lenda á Keflavíkurflugvelli klukkan níu að morgni og taka á loft klukkutíma síðar.

Mikil samkeppni í sumar

Eins og áður segir þá fljúga bæði Icelandair og WOW air til Montreal og Toronto. Auk þess býður Icelandair upp á áætlunarflug til Vancouver, Halifax og Edmonton en þegar Icelandair hóf að fljúga til síðastnefndu borgarinnar árið 2014 varð það til þess að Air Canada dróg úr Evrópuflugi sínu þaðan. Það hafði reyndar verið mjög takmarkað og þess vegna þurftu íbúar þessarar ríflega milljón manna borgar að millilenda í Calgary á leið sinni til Evrópu.
Nú er hins vegar ljóst að félögin tvö, auk WOW air, munu í sumar keppa um hylli farþega á leið milli Íslands og Kanada.

SMELLTU TIL AÐ SJÁ HVAÐA FLUGFÉLÖG FLJÚGA HVERT Í SUMAR