Í sánu með heimamönnum í Helsinki

helsinki sauna day

Þeir sem eiga leið um höfuðborg Finna um helgina geta þá auðveldlega blandað geði við heimamenn en þá nauðsynlegt að pakka handklæði.
Á laugardaginn opna íbúar höfuðborgar Finnlands sánuböð sín fyrir gestum og gangandi þökk sé Jakko Blomberg. Túristi tók þennan upphafsmann Helsinki Sauna Day tali.
Hver er hugmyndin að baki sánudeginum?
Í Helsinki er fullt af sánum sem standa tómar og ónotaðar en á sama tíma er hér hellingur af fólki sem vill komast í eina slíka. Til að mynda til að hitta aðra enda löng hefð fyrir því að sánur séu samkomustaðir. Síðustu ár hefur svo orðið meiri stemning fyrir því hér í Helsinki að íbúarnir sjálfir láti hlutina gerast og til hafa orðið alls kyns viðburðir. Flestir þeirra eru hins vegar á dagskrá yfir sumarmánuðina. En finnska sumarið er stutt og þörfin fyrir að hitta annað fólk er líka til staðar á öðrum árstímum og blessunarlega er alltaf hægt að fara í sánu, jafnvel þó það sé snjór úti. Þess vegna lá það beint við að kynna til sögunnar Helsinki Sauna Day og halda hann hátíðlegan yfir köldustu mánuðina.

Hvað eigið þið von á mörgum þátttakendum og hversu margar sánur verða opnar?
Við höfum verið með meira en fimmtíu saunur á lista og ég á von á að þær verð ívið fleiri að þessu sinni. Fjöldi baðgesta hefur líka aukist hratt, í mars í fyrra komu fimmtán hundruð manns og í október fjölgaði þeim um þriðjung. Fjöldinn fer örugglega yfir tvö þúsund um helgina því nú þegar eru margar sánu uppbókaðar.

Mætir maður með sundföt og handklæði á Helsinki Sauna Day?
Það er ekki galið að taka með sér nokkur handklæði ef maður ætlar að fara í fleiri en eina sánu yfir daginn. Síðast náðu nokkrir þátttakendur að prófa sautján ólíkar yfir daginn og þeir sem eru svo metnaðarfullir verða að koma með nóg af handklæðum. Það er líka góð hugmynd að vera með eitthvað að drekka. Sundföt geta líka komið að góðum notum, bæði í sánunni sjálfri og til að synda í. Venjulega fer maður nakinn í finnskt gufubað en þegar bæði kynin eru í klefanum þá eru sundföt notuð og svo gera sumir sánagestgjafar kröfu um slíkt. Þess háttar skilyrði fara reyndar ekki vel í alla því til eru þeir sem taka ekki annað í mál en að fara allsberir í sána.

Myndir þú segja heimsókn í sána sé skyldustopp fyrir túrista í Helsinki?
Já, því sána er svo sannarlega hluti af finnskum kúltúr og heimsókn í eina slíka gefur þér færi á að hitta heimamenn en ekki bara aðra ferðalanga.

Með hvaða sánum í Helsinki mælir þú með?
Timburkofi úti við vatn er kannski það sem kemur upp í huga flestra þegar finnskt gufubað ber á góma en það er mikið af frábærum sánum í Helsinki. Kotiharju og Arla eru tvær hefðbundnar en Löyly og Allas, sem opnar í vor, eru nútímalegar. Svo auðvitað Sompasauna sem er kannski alþýðlegasta sánan af þeim öllum.

Áhugasamir um Helsinki Sauna Day geta fengið nánari upplýsingar á heimasíðu átaksins og Icelandair býður upp á flug til Helsinki allt árið um kring. Hér í lokin er svo stutt myndband sem lýsir stemningunni á þessum nýja hátíðardegi Helsinkibúa: