Ríflega tvöfalt fleiri Íslendingar til Tenerife

Íslensku ferðafólki á Tenerife hefur fjölgað hratt síðustu ár eftir að framboð á flugi þangað jókst.

kanari strond

Lengi vel takmörkuðust samgöngurnar milli Íslands og Tenerife við leiguflug á vegum stærstu ferðaskrifstofa landsins en WOW air hóf svo vikulegt áætlunarflug til Tenerife í ársbyrjun 2015 og síðar bætti lággjaldaflugfélagið við annarri brottför. Þar með ríflega tvöfaldaðist framboðið og á sama tíma hefur Primera Air fjölgað sínum ferðum. Sumaráætlun flugfélagsins gerir til að mynda ráð fyrir allt að þremur ferðum í viku til Tenerife en Primera Air flýgur m.a. annars fyrir ferðaskrifstofur til eyjunnar. Það sama gerir Icelandair yfir veturinn.

500 Íslendingar til Tenerife í hverri viku

Þetta stóraukna framboð á flugi til Tenerife hefur orðið til þess að fjöldi íslenskra ferðamanna á Tenerife hefur meira en tvöfaldast á milli áranna 2014 og 2016. Allt síðasta ár lentu á Tenerife-flugvelli 26.153 farþegar frá Íslandi en þeir voru rétt um 20 þúsund í hittifyrra en aðeins 11.431 árið 2014 samkvæmt svari ferðamálayfirvalda á Spáni við fyrirspurn Túrista. Þetta jafngildir því að vikulega hafi rétt um fimm hundruð íslenskir ferðamenn komið til Tenerife í viku hverri allt síðasta ár en samkvæmt heimildum Túrista eru það nær eingöngu Íslendingar sem nýta sér flugsamgöngurnar milli Keflavíkurflugvallar og Tenerife.
Gera má ráð fyrir að farþegafjöldinn hafi aukist töluvert undanfarið því ferðunum hefur fjölgað það sem af er ári. Í febrúar í fyrra flugu héðan 12 þotur til Tenerife en brottfarirnar voru 20 í síðasta mánuði samkvæmt daglegum talningum Túrista á flugumferð um Keflavíkurflugvöll. Mánaðarlega eru því sæti fyrir 3.300 til 4.000 farþega í flugvélunum sem fara á milli Íslands og spænsku eyjunnar og útlit er fyrir að brottfarirnar verði álíka tíðar í sumar enda sækja Íslendingar í sólarlandaferðir til Tenerife allan ársins hring.

Líka fleiri ferðir til Las Palmas

Við allt Tenerifeflugið bætast svo ferðir til Las Palmas á Gran Canaria sem er stærst Kanaríeyja. Þangað var flogið sex sinnum í febrúar í fyrra en ellefu sinnum í nýliðnum febrúar. Miðað við ferðafjöldann til Tenerife og Las Palmas í síðasta mánuði má gera ráð fyrir að á bilinu 4800 til 5400 Íslendingar hafi flogið til eyjanna tveggja.
Ferðirnar til Gran Canaria lögðust vanalega af yfir sumarmánuðina en annað árið í röð býður Ferðaskrifstofa Íslands nú upp á pakkaferðir þangað allan ársins hring.