Trump skapar vanda í bandarískri ferðaþjónustu

newyork loft Troy Jarrell

Hóteleigandinn Donald J. Trump sem nú fer með völdin í Hvíta húsin virðist ætla að gera fyrrum kollegum sínum í ferðageiranum lífið erfitt. Hóteleigandinn Donald J. Trump sem nú fer með völdin í Hvíta húsin virðist ætla að gera fyrrum kollegum sínum í ferðageiranum lífið erfitt.
Ferðafólki í Bandaríkjunum mun fækka um 8,2 prósent í ár samkvæmt nýrri spá og í New York er búist við því að í fyrsta skipti í sjö ár muni útlendingar draga úr heimsóknum sínum til borgarinnar. Í viðtali við New York Times dregur Ted Dixon, yfirmaður ferðamála borgarinnar, ekki dul á að ástæðan fyrir þessari neikvæðu þróun eru yfirlýsingar og stefna nýs Bandaríkjaforseta í málefnum útlendinga. Til að mynda ferðabannið umtalaða sem nær til íbúa sex ríkja í Asíu og Afríku en Dixon á von á því að evrópskum ferðamönnum fækki líka og það muni koma í ljós þegar háannatími í ferðamennsku hefjist um páskana. „Þá munum við sjá hvaða áhrif orðagjálfrið sem kemur frá Washington mun hafa á ferðaþjónustu.“
Í fyrra komu 12,7 milljónir erlendir túristar til New York en samkvæmt nýrri spá ferðamálayfirvalda þar í borg þá er búist við að þeim fækki um 300 þúsund í ár. Hins vegar er gert ráð fyrir að innlendum ferðamönnum í New York fari fjölgandi.

Trump fælir líka Íslendinga frá

Samdrátturinn annars staðar í Bandaríkjunum verður hlutfallslega ennþá meiri en í New York gangi spá fyrirtækisins Tourism Economics eftir. Samkvæmt þeim mun komum erlendra ferðamanna til Bandaríkjanna fækka um 6,3 milljónir næstu tvö ár í samanburði við árið 2016. „Við sjáum fram á mjög krefjandi ár fyrir bandaríska ferðaþjónustu,“ segir Adam Sacks, yfirmaður Tourism Economics í viðtali við New York Times. Máli sínu til stuðnins bendir hann á þá staðreynd að víða um heim hefur orðið verulegur samdráttur í netleitum eftir flugmiðum til Bandaríkjanna eftir að Trump tók við lyklavöldum í Hvíta húsinu. Og samkvæmt lesendakönnun Túrista þá segja 68 prósent lesenda að kjör Donald J. Trump og frammistaða hans í forsetaembætti hafi dregið úr áhuga þeirra á ferðalögum til Bandaríkjanna. 

Þegar Trump var kosinn forseti Bandaríkjanna bundu margir forsvarsmenn ferðamála í Bandaríkjunum vonir við að hann myndi sýna málefnum greinarinnar meiri skilning en forverar hans meðal annars vegna þess að Trump hefur verið stórtækur í hótelrekstri um langt skeið.