Skíðalest frá Denver og beint upp í fjöll

winterpark lest

Bílaleigubílar eru ekki þarfaþing þegar farið er í skíðaferð til Colorado. Bílaleigubílar eru ekki þarfaþing þegar farið er í skíðaferð til Colorado.
Færið í fjöllunum í Colorado í Bandaríkjunum mun hafa verið framúrskarandi í vetur á meðan hlýindakaflar hafa gert skíðaáhugafólki í Ölpunum lífið leitt. Í nágrenni við Denver eru nokkur af þekktustu skíðasvæðum Colorado og þangað tekur alla jafna 2 til 4 klukkutíma að keyra. Hvort sem lagt er í hann beint frá flugvellinum eða frá miðborg Denver. Bílaleigubílarnir koma hins vegar oft að litlum notum á skíðastaðnum sjálfum því tíðar skutlferðir og lyftur niður í bæ er eitt af því sem einkennir almennilega skíðastaði.

Fjöldi Íslendinga á skíðum í Winter Park

Það kostar líka sitt að leigja bíl jafnvel þó hann standi kyrr lungann úr ferðalaginu. Góðar almenningssamgöngur frá flugvelli eða borg og upp í fjöll geta því lækkað ferðakostnaðinn töluvert og nú geta þeir sem ætla að renna sér á skíðum um Winter Park svæðið í Colorado tekið lest upp í brekkurnar beint frá miðborg Denver. Skíðalestin fór á teinana í ársbyrjun eftir langt hlé og að sögn Steve Hurlbert, talsmanns Winter Park, þá hafa viðtökurnar farið langt fram úr væntingum. „Lestin hefur slegið í gegn og við erum að skoða þann möguleika að bæta við ferðum næsta vetur,” segir Hurlbert í svari til Túrista. Hann bætir því við að af stóru skíðasvæðunum í nágrenni við Denver þá sé Winter Park næst borginni og því mjög vinsæll áfangastaður hjá þeim útlendingum sem geti flogið beint til Denver. „Þess vegna kemur hingað mikill fjöldi Íslendinga hvern einasta vetur.“ En Icelandair flýgur beint til Denver allan ársins hring.