Sumarbann á lággjaldaflugfélög myndi litlu breyta

Formaður Samtaka ferðaþjónustunnar leggur til að lággjaldaflugfélög sem aðeins fljúga til Íslands á sumrin verði beint frá Keflavíkurflugvelli og til Akureyrar. Hins vegar eru það oftar klassísk flugfélög frekar en lággjaldaflugfélög sem aðeins sinna Íslandsflugi yfir aðalferðamannatímabilið.
Af þeim 24 flugfélögum sem bjóða upp á áætlunarflug frá Keflavíkurflugvelli eru 11 sem eingöngu stunda Íslandsflug fyrir sumarmánuðina. Þar af eru þrjú sem flokka má sem hefðbundin lággjaldaflugfélög en í gær viðraði Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, þá hugmynd að lággjaldaflugfélögum sem eingöngu fljúga til Íslands yfir sumarið verði beint til Akureyrar eða Egilsstaða líkt og Mbl.is greindi frá. Það eru hins vegar aðallega hefðbundin félög sem takmarka áætlunarferðir til Íslands við háannatímann og þessi þrjú lággjaldaflugfélög sem það gera eru öll í eigu stærstu flugfélaga Evrópu. Þannig er Eurowings undir stjórn Lufthansa, stærsta flugfélags Þýskalands, sem jafnframt býður aðeins upp á flug til Íslands frá vori og fram á haust. Transavia sem flýgur hingað frá París er hluti af samsteypu KLM og Air France og svo er það spænska lággjaldaflugfélagið Iberia Express sem kemur hingað frá Madríd en það félag er útibú frá Iberia, stærsta flugfélagi Spánar.

Óskýr skil

Að úthýsa Eurowings, Transavia og Iberia Express frá Keflavíkurflugvelli myndi hins vegar hafa lítil áhrif á umferðina um Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Í júlí sl. stóðu þessi þrjú félög nefnilega fyrir tæplega þremur af hverjum hundrað flugferðum til og frá landinu samkvæmt talningu Túrista. Reyndar mætti líta á FlyNiki sem lággjaldafélag en þetta austurríska flugfélag tilheyrir Airberlin sem ekki lengur flokkast sem slíkt. Skilin á milli þessara tveggja flokka verða sífellt óskýrari líkt og nýleg umræða um Icelandair sýnir. Þá var mikið rætt hvort félagið myndi feta veg lággjaldaflugfélaganna að einhverju leyti og endaði sú umræða með því að forstjóri Icelandair Group sagði flugfélagið vera „Hybrid“, þ.e. blöndu af lággjaldafélagi og hefðbundnu líkt og framkvæmdastjóri Icelandair sagði um árið.
Það flækir einnig flokkunina að mörg hefðbundin flugfélög hafa fylgt í fótspor lággjaldaflugfélaga og tekið upp tösku- og sætisgjöld á meðan flugfélög eins og WOW air og Ryanair eru nú með viðskiptafargjöld á boðstólum, eitthvað sem áður var bara að finna hjá þeim klassísku. Það gæti því orðið erfitt að réttlæta bann við flugi Eurowings til Keflavíkurflugvallar en heimila áframhaldandi sumarflug systurfélaga þess, Austrian Airlines og Lufthansa.

Gengur illa að fá millilandaflug norður

Það er heldur ekki víst að hægt sé að dreifa flugfélögum um landið frekar en ferðamönnum. Þó auðvitað væri ákjósanlegt að beina þotum Eurowings, Transavia og Iberia Express út á land því gera má ráð fyrir að félögin hafi flutt hingað á bilinu 10 til 13 þúsund ferðamenn í júlí sl. Áhugi erlendra flugfélaga á því að fljúga beint til Akureyrar eða Egilsstaða virðist hins vegar vera takmarkaður. Til að mynda hefur ekkert flugfélag hafið áætlunarflug til Akureyrar síðustu ár jafnvel þó heimamenn hafi unnið að því um langt skeið. Í tíð síðustu ríkisstjórnar var svo settur á stofn flugþróunarsjóður sem hefur til ráðstöfunar einn milljarð króna til að styðja við millilandaflug til og frá Akureyri og Egilsstöðum. Stofnun þess sjóðs hefur heldur engu skilað og nýverið var reglum hans breytt þannig að nú er innanlandsflug frá Keflavíkurflugvelli í tengslum við alþjóðaflug styrkbært. Öfugt við það sem var þegar sjóðurinn var settur á laggirnar. En í síðasta mánuði hóf Flugfélag Íslands beint flug frá Akureyri til Keflavíkurflugvallar og þar með er í fyrsta skipti hægt að fljúga innanlands frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar en þó bara ef farþeginn er á leið til eða frá landinu.