Samfélagsmiðlar

Áfram gistináttagjald þó virðisaukaskattur tvöfaldist

reykjavik Tim Wright

Virðisaukaskattur á gistingu á Íslandi verður sá næst hæsti í Evrópu. Hlutfall opinberra gjalda af ódýrri gistingu verður hins vegar það hvergi hærra í álfunni. Um mitt næsta ár hækkar virðisaukaskattur á ferðaþjónustu úr 11% í 24% en í ársbyrjun 2019 lækkar skatthlutfallið svo niður í 22,5%. Þar með verður virðisaukaskattur á gistingu á Íslandi sá næst hæsti í Evrópu. Hlutfall opinberra gjalda af ódýrri gistingu verður hins vegar það hæsta í álfunni.
Í haust hækkar gistináttagjald á gistingu hér á landi úr 100 krónum í 300 krónur. Áfram er gert ráð fyrir þessu gjaldi í fjármálaáætlun ríkisins þrátt fyrir að virðisaukaskattur á ferðaþjónustu, þar á meðal hótelgistingu, ríflega tvöfaldist 1. júlí á næsta ári. Þetta kemur fram í svari fjármálaráðuneytisins við fyrirspurn Túrista um hvort breytingar á virðisaukaskattskerfinu hafi áhrif á gistináttagjaldið. En fyrir helgi tilkynnti Benedikt Jóhannsson, fjármálaráðherra, að ferðaþjónustan færi úr neðri þrepi virðisaukaskatts og upp í það efra. Þessari breytingu hafa forsvarsmenn ferðaþjónustunnar mótmælt harðlega og meðal annars bent á að með þessu verði álögur á ferðaþjónustu hér á landi þær næst hæstu í Evrópu. Aðeins í Danmörku er virðisaukaskattur á greinina hærri. Þar í landi er aðeins eitt skattþrep, 25%, en ekki tvö eða fleiri líkt og víðast hvar annars staðar. Og þar sem þrepin eru fleiri en eitt er ferðaþjónusta almennt í neðri þrepum, í Svíþjóð er virðisauki t.a.m. 25% en aðeins 12% á hótelum og matsölustöðum. Í Finnlandi og Noregi greiða hótelgestir 10% virðisaukaskatt, í Þýskalandi er hlutfallið 7%, 10% í Frakklandi og 13% á Spáni. 

Opinber gjöld vega þyngst hér á landi

Innheimta á 100 króna gistináttagjaldi hófst hér á landi fyrir fimm árum síðan en á hinum Norðurlöndunum tíðkast ekki þess háttar gjald. Upphæð þess þrefaldast í haust og þá þurfa gestir á íslenskum gististöðum að greiða 300 krónur aukalega fyrir hvert herbergi hverja nótt. En eins og áður segir er áfram gert ráð fyrir tekjum af þessum skatti í fjármálaáætlun ríkisins sem fjármálaráðherra kynnti fyrir helgi.
Þar með verður hlutfall opinberra gjalda af hótelgistingu, í ódýrari kantinum, hærra hér á landi en til að mynda í Danmörku og þrefalt hærra en í Noregi. Af 15 þúsund króna hótelreikningi sem gefinn verður út hér á landi, seinni hluta næsta árs, þá munu 3.203 krónur renna í ríkissjóð í stað 1.586 kr. í dag. Danski skatturinn tekur ögn minna í sinn hlut eða 3 þúsund krónur af 15 þúsund króna herbergi. Á hinum Norðurlöndunum er upphæðin mun lægri eða 1.607 til 1.364 krónur eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan.
Þannig heldur hótelstjóri í Þrándheimi í Noregi eftir 13.636 krónum af 15 þúsund króna hótelreikningi á meðan starfsbróðir hans á Ísafirði fær 11.797 krónur í sinn hlut fyrir jafn dýra gistingu. Hagur þess vestfirska vænkast þó um 148 krónur þann 1. janúar 2019 þegar efra þrep virðisaukaskattsins fer niður í 22,5%. 

Danski skatturinn tekur meira af dýrari gistingu

Hlutfall skatta af hótelreikningum er hins vegar hærra í Danmörku en hér á landi þegar litið er til dýrari gistingar en samkvæmt athugun bókunarsíðunnar Trivago kostar meðalnótt á reykvísku hóteli um 23 þúsund krónur um þessar mundir. Þegar gistingin kostar orðið það mikið þá er vægi skattsins ögn hærra í Danmörku en hér á landi. Hins vegar er það miklu hærra en hjá hinum löndunum í norðurhluta álfunnar, löndum sem hafa upp á margt sambærilegt að bjóða og ferðaþjónusta hér á landi.
Sem fyrr segir þá kemur það fram í svari fjármálaráðuneytisins til Túrista að áfram sé gert ráð fyrir gistináttagjaldi. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, hefur hins vegar viðrað þá hugmynd að gjaldið renni til sveitarfélaga í framtíðinni. Samkvæmt upplýsingum Túrista frá samtökum danskra hóteleigenda hefur ekki verið umræða í Danmörku um að leggja á gistináttagjald. Þess háttar gjald tíðkast hins vegar á meginlandi Evrópu þar sem virðisaukaskattur á gistingu er mun lægri en verður hér á landi eftir breytinguna á næsta ári.

 

Nýtt efni

Mitt inn í dimmum Grünheideskógi skammt frá Berlín hafa 80 manneskjur komið sér fyrir í kofum sem þau hafa byggt hátt uppi trjánum. Kofaþorpið eru bækistöðvar mótmælenda eða aðgerðarsinna eins og þau kalla sig. Einmitt inni í þessum sama skógi hyggst bandaríski rafmagnsbílaframleiðandinn Tesla stækka svokallaða gígaverksmiðju sem var tekin var í notkun í mars …

Lufthansa hefur náð samkomulagi við verkalýðsfélagið Verdi og þar með er endi bundinn á langa vinnudeilu við flugvallarstarfsfólk þýska flugfélagsins. Flugáætlun Lufthansa fer því ekki úr skorðum yfir páskana líkt og útlit var fyrir en félagið er með þrjár flugferðir til Íslands á áætlun sinni yfir hátíðarnar. Hinn nýi samningur Verdi og Lufthansa kemur í …

Það voru 561 þúsund skráðar gistinætur hér á landi í febrúar sem er um 2,5 prósent samdráttur í samanburði sama tímabil í fyrra. Ef tekið er tillit til hlaupársdagsins þá var fækkunin ennþá meiri eða nærri 6 af hundraði. Á hótelum landsins voru gistinæturnar 373 þúsund sem er ögn meira en í febrúar í fyrra …

Þegar Hagstofan leggur mat á breytingar á verðlagi þá er meðal annars horft til fargjalda, bæði í flug innanlands og til útlanda. Samkvæmt nýjum verðmælingum Hagstofunnar þá lækkaði farið frá Keflavíkurflugvelli um 5 prósent í mars en farþegar í innanlandsflugi þurftu að borga 16 prósent meira en í fyrra. Á sama tíma hækkaði verðlag í …

„Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka …

Xiaomi er hraðvaxta hátæknifyrirtæki í Beijing í Kína, stofnað fyrir 14 árum af frumkvöðlinum og milljarðamæringnum Lei Jun og félögum hans. Á síðasta ári var fyrirtækið í þriðja sæti á lista þeirra sem seldu flesta farsímana - næst á eftir Samsung og Apple. Xiaomi framleiðir og selur margskonar annan háþróaðan tæknibúnað og neytendavörur en samdráttur …

Fyrir rúmu ári var greint frá því að þýska Lufthansa-samsteypan hefði áhuga á að kaupa 40 prósenta hlut í ítalska þjóðarflugfélaginu ITA en niðurstaða hefur ekki enn fengist. Í janúar hóf Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins rannsókn á samkeppnisáhrifum þess að Þjóðverjarnir eignuðust stóran hlut í ítalska flugfélaginu sem lengi hefur verið stjórnvöldum á Ítalíu höfuðverkur.  Nú í …

Fyrir mánuði sendi Storytel frá sér fréttatilkynningu þar sem kynnt var ný þjónusta fyrir notendur. Brátt eiga hlustendur hljóðbóka möguleika á að velja nýjan lesara ef þeim líkar ekki innlesturinn. Valraddirnar eru allar skapaðar af vélmennum eða svokölluðum gervigreindarupplesurum.  Þetta nýja verkfæri Stoyrtel er tekið í gagnið vegna þess að 89 prósent af þeim sem …