Átta af tíu leigusölum Airbnb telja ekki rétt fram

stokkholm Danderydsg

Athugun sænska skattsins leiðir í ljós að hátt hlutfall þeirra sem bjóða upp á heimagistingu standa ekki rétt að skattaskilum. Athugun sænska skattsins leiðir í ljós að hátt hlutfall þeirra sem bjóða upp á heimagistingu standa ekki rétt að skattaskilum. Hjá Ríkisskattstjóra er stöðugt verið að vinna með þennan málaflokk en sú vinna er tímafrek því tekjurnar geta verið taldar fram á margvíslegan hátt.
Frítekjumark leigutekna í Svíþjóð jafngildir um hálfri milljón íslenskra króna á ári og það á líka við þó húsnæðið sé leigt út í skammtímaleigu til ferðamanna. Nýleg úttekt sænska skattsins leyddi hins vegar í ljós að 8 af hverjum 10 sem leigja út í gegnum Airbnb standa ekki rétt að skilum opinberrra gjalda en í úttektinni voru skattskýrslur 250 leigusala kannaðar. „Af samskiptum okkar við viðkomandi einstaklinga að dæma þá skrifast hluti af vandanum á þekkingarleysi á skattareglunum en svo eru aðrir sem hafa einfaldlega tekið áhættuna á því að við myndum ekki taka eftir þessu. Í þeim tilfellum er einfaldlega um að ræða svindl,“ segir Rebecca Friis hjá Skatteverket í samtalið við Dagens Industri. Námu skattsvikin frá nokkrum þúsundum króna og upp í nokkrar milljónir.
Yfirvöld í Svíþjóð hafa boðað lagabreytingar til að bregðast við auknum umsvifum deilihagkerfisins þar í landi.

Sænsku og íslensku reglurnar ólíkar

Í Svíþjóð skal greiða 30 prósent skatt af öllum tekjum sem eru umfram fyrrnefnt frítekjumark og samkvæmt upplýsingum á heimasíðu sænska skattsins má að hámarki bjóða heimagistingu í 112 daga á ári. Tekjurnar af þessari starfsemi mega hins vegar ekki fara yfir 50 þúsund sænskar krónur (um 600 þúsund íslenskar). Allt umfram þessi mörk telst vera leyfisskyldur gistihúsarekstur og hann ber 12 prósent virðisaukaskatt.
Samkvæmt nýjum reglum um heimagistingu hér á landi þá mega fasteignaeigendur hafa allt að 2 milljónir króna í tekjur af heimagistingu en aðeins leigja út í 90 daga. Íslenskur fasteignaeigandi, sem nýtir sér þetta til fulls, má því hafa að jafnaði rúmar 22 þúsund krónur í tekjur fyrir hverja nótt en í Svíþjóð yrði meðalverð á nótt fjórum sinnum lægra eða rétt tæpar 5.500 krónur. 

Málaflokkur sem stöðugt er til skoðunar hjá íslenska skattinum

Líkt og Túristi greindi frá í síðustu viku þá sýna tölur frá Airbnb að fasteignaeigendur hér á landi hafa um fimmtfalt hærri tekjur af heimagistingu en frændþjóðirnar. Aðspurður um hvort sambærilegt úttekt hafi verið gerð hér á landi og í Svíþjóð segir Sigurður Jensson hjá Ríkisskattstjóra að þessi mál séu alltaf til skoðunar. „Við höfum okkar yfirsýn og tilfinningu varðandi heimagistingu og þetta er málaflokkur sem við erum stöðugt að vinna með. Lagaramminn er jafnframt að breytast og nú nýverið voru sett lög sem vonandi einfaldar skattaþáttinn fyrir minni aðila í heimagistingu. Það sem hefur einkennt þennan málaflokk er að tekjur hafa verið taldar fram með mismunandi hætti en ekki endilega röngum. Þó vissulega séu dæmi um það sem og að tekjur hafi vantað eins og í öllum öðrum rekstri. Þú finnur tekjur vegna heimagistingar inn í félögum sem geta jafnvel verið ranglega atvinnugreinarmerkt, inn í rekstrarskýrslum einstaklinga og í einhverjum tilvikum eins og venjulegar leigutekjur. Þannig að fjölbreytileikinn er mikill og tekur talsverðan tíma að átta sig hvar tekjurnar geta legið.“