Bílaleigubílar við Leifsstöð dýrastir en þó þriðjungi ódýrari en í fyrra

Þrátt fyrir styrkingu krónunnar þá kostar minna að bóka bílaleigubíl við Flugstöð Leifs Eiríkssonar núna en í fyrra. Íslendingar á leiðinni út í sumar geta líka bókað sér ódýari bíla en munurinn á milli mánaða er töluverður.

island anders jilden

Síðastliðið sumar og í hittifyrra þurftu ferðamenn hér á landi að borga að lágmarki um 9 þúsund krónur á dag fyrir afnot af bílaleigubíl sem afhentur var við Flugstöð Leifs Eiríkssonar og leigður í 2 vikur. Í dag er ódýrasta meðalverðið hins vegar 6.209 krónur eða um helmingi lægra. Þrátt fyrir verðlækkunina þá er bílaleiguverðið við Keflavíkurflugvöll nokkru hærra en við flugstöðvar á meginlandi Evrópu samkvæmt árlegum könnunum Túrista sem framkvæmdar eru um mánaðarmótin mars-apríl. Bilið er þó mun minna en áður eins og sjá má á grafinu hér fyrir neðan.
Líkt og í fyrri könnunum Túrista þá var stuðst við leitarvél Rentalcars sem er eitt umsvifamesta fyrirtæki heims í miðjun bílaleigubíla og í öllum tilvikum er um að ræða bíla með kaskótryggingu og ótakmarkaðan akstur.

Líka lægra verð hjá leigunum sjálfum

Verðlækkunin hér heima nær þó ekki bara til leitarvélar Rentalcars því athuganir Túrista síðustu ár leiða líka í ljós að leiguverðið hjá tveimur af stærstu bílaleigum landsins, Hertz og Avis, hefur líka lækkað. Á sama tíma í fyrra og hittifyrra kostaði ódýrasti bíllinn hjá Hertz við Leifsstöð 203 þúsund krónur fyrir seinni hluta júlímánaðar. Í dag er leigan 132.200 krónur hjá Hertz fyrir þetta sama tímabil. Sá sem leigir hjá Avis greiðir 121.999 krónur en bíll af minnstu gerð hjá bílaleigunni kostaði 220 þúsund í fyrra og 214 þúsund í hittifyrra.
Þessi verðlækkun á íslenska markaðnum á sér stað á sama tíma og krónan hefur styrkst um 15% gagnvart evru og því var viðbúið að leiguverðið hefði hækkað sem því nemur milli ára. Raunin er hins vegar önnur og erlendur ferðamaður sem bókar bílaleigubíl í dag fyrir Íslandsferð sumarsins getur því fundið nokkru ódýrari bílaleigubíl við Keflavíkurflugvöll en síðustu ár.

Ódýrara fyrir íslenska túrista

Íslendingur á leið til Evrópu í sumar borgar líka minna fyrir bílaleigubíl núna en í fyrra við margar af þeim flugstöðum sem flogið er beint til frá Íslandi. Aðeins í Ósló, Genf og París hefur meðalverðið hækkað frá því í fyrra eins og sjá má hér fyrir neðan. Hins vegar má finna helmingi ódýrari bílaleigubíla í Alicante og í Kaupmannahöfn um þessar mundir en í fyrra og hittifyrra. Það getur hins vegar verið mjög mikill verðmunur á milli tímabila og víðast hvar er mun dýrara að hafa leigja bíl seinni hlutann í júlí en í júní eða ágúst. Það á líka við hér á landi því bílarnir eru mun ódýrari í júní en seinna um sumarið.
Rétt er að taka fram að Rentalcars.com er samstarfsaðili Túrista og heldur úti bílaleiguleitarvél síðunnar.