Dvínandi áhugi á ferðum til Bandaríkjanna

trump

Vísbendingar eru um stefna og aðgerðir nýs Bandaríkjaforseta og ferðaþjónusta landsins sér fram á gríðarlegt tap. Vísbendingar eru um stefna og aðgerðir nýs Bandaríkjaforseta dragi úr eftirspurn eftir ferðalögum vestur um haf. Ferðaþjónusta landsins sér fram á gríðarlegt tap.
Hóteleigandinn Donald J. Trump, sem nú fer með völdin í Hvíta húsinu, nýtur sennilega minnkandi vinsælda meðal fyrrum kollega sinna í ferðageiranum. Enda útlit fyrir töluverðan samdrátt í komum erlendra ferðamanna til Bandaríkjanna í ár samkvæmt spám.
Í frétt Dagens Nyheter í dag kemur fram að töluvert hafi dregið úr sölu á ferðum til Bandaríkjanna frá Svíþjóð. Samdrátturinn nemur til að mynda 13% hjá ferðaskrifstofunni Ticket sem er ein sú stærsta í Svíþjóð. „Við sjáum greinileg Trump-áhrif. Sumir bóka ekki vegna ferðabannsins sem forsetinn hefur reynt að koma á en aðrir upplifa ákveðið óöryggi í kringum Bandaríkin og það dregur úr áhuga þeirra á að ferðast þangað,“ er haft eftir talskonu ferðaskrifstofunnar í sænska dagblaðinu. Hjá ferðaskrifstofunni Resia hefur sala á Bandaríkjareisum dregist ennþá meira saman eða um 18%.

Hefur áhrif á fargjöldin

Þessi minnkandi eftirspurn eftir ferðum til Bandaríkjanna er farin að hafa áhrif á fargjöldin að mati sænskra ferðafrömuða og samkæmt annarri rannsókn þá varð 14% samdráttur í bókunum á flugmiðum til bandarískra borga frá V-Evrópu í síðustu viku janúarmánaðar. Og af fréttum bandaríska fjölmiðla að dæma þá hafa verðskrár hótel í New York og Las Vegas farið lækkandi undanfarið. Það eru því vísbendingar um að spá Tourism Economic um að erlendum ferðamönnum í Bandaríkjunum fækki um 6,3 milljónir í ár gangi eftir. En ef það gerist þá er gert ráð fyrir að ferðaþjónusta landsins verði af tekjum upp á 11 milljarða dollara . 

Íslendingar líka minna spenntir

Af Norðurlandaþjóðunum eru flugsamgöngurnar við Bandaríkin mestar frá Íslandi og helgast það af því að bæði Icelandair og WOW air gera út á flug milli Evrópu og N-Ameríku með millilendingu á Keflavíkurflugvelli. Þar með geta farþegar í Leifsstöð valið úr beinu flugi til fleiri áfangastaða vestanhafs og tíðari ferða en til að mynda þeir sem flúga frá Kaupmannahöfn, Stokkhólmi eða Ósló. Nálægðin við Bandaríkin og þessari miklu flugsamgöngur hafa líka haft hvetjandi áhrif á ferðahegðun Íslendinga því miklu hærra hlutfall íslensku þjóðarinnar ferðast til Bandaríkjanna en þekkist meðal hinna Norðurlandaþjóðanna eða hjá Eystrarsaltslöndunum. Bandaríkjareisum Íslendinga gæti hins vegar farið fækkandi því samkvæmt nýlegri lesendakönnun Túrista, sem ríflega þúsund svör fengust í, þá segja 68% að kjör Trump og framganga hans á forsetastóli hafi dregið úr áhuga sínum á ferðalögum til Bandaríkjanna.