Fækka flugferðum hingað frá Þýskalandi

airberlin 860

Airberlin dregur úr áætlunarflugi sínu til Íslands frá Munchen í vor og haust. Ástæðan er þó ekki minnkandi eftirspurn eftir Íslandsferðum. Airberlin dregur úr áætlunarflugi sínu til Íslands frá Munchen í vor og haust. Ástæðan er þó ekki minnkandi eftirspurn eftir Íslandsferðum.
Fá erlend flugfélög hafa eins mikla reynslu af Íslandsflugi og Airberlin en þetta næst stærsta flugfélag Þýskalands hefur boðið upp á áætlunarferðir hingað síðustu 12 sumur frá nokkrum af fjölmennustu borgum Þýskalands og Vínarborg í Austurríki. Auk þess fljúga þotur félagsins til Keflavíkurflugvallar allt árið um kring frá Berlín og Dusseldorf.
Í áætlun Airberlin fyrir komandi sumar er gert ráð fyrir þremur ferðum í viku til Íslands frá Munchen frá vori og fram á haust. Í síðustu viku felldi félagið hins vegar niður allt flug sitt hingað frá Munchen í maí og einnig frá lokum september og út október. Theresa Kahn, talskona Airberlin, segir í samtali við Túrista að ástæðan fyrir þessari breytingu sé rekstrarleg en skrifist ekki á minnkandi áhuga Þjóðverja á Íslandsferðum. „Eftirspurn eftir flugi okkar til Íslands er jöfn og við erum ánægð með þróunina á þessum flugleiðum okkar til landsins.“
Samkvæmt talningu Túrista þá fækkar ferðum Airberlin til Íslands í vor og haust um 26 en þotur félagsins rúma 179 farþega. Þar með dregst framboð á flugi hingað frá Munchen saman um 4.654 sæti í ár en Icelandair flýgur til borgarinnar allt árið um kring og Lufthansa stundar Íslandsflug þaðan yfir sumarið.

Fleiri þýskir áfangastaðir en áður

Airberlin hefur átt við rekstrarvanda að stríða um langt skeið og í vetur þurfti félagið skera niður flugflota sinn töluvert. Þrátt fyrir það var áætlun Íslandsflugs Airberlin fyrir þetta ár nær óbreytt frá því í fyrra að frátöldu sumarfluginu hingað frá Hamborg en þangað fljúga bæði Icelandair og Eurowings. Í heildina er í boði beint flug héðan héðan til 11 þýskra borga í ár þar af í fyrsta skipti til Dresden og Nürnberg.
Flugsamgöngur milli Íslands og Þýskalands hafa einnig aukist yfir vetrarmánuðina og þar með fjölgar þýsku ferðmönnunum. Fyrstu þrjá mánuðina í ár hefur aukningin í komum þýskra túrista numið 71,5 prósentum samkvæmt talningu Ferðamálastofu.