Flug til Akureyrar og 58 erlendra borga

Flugumferðin um Keflavíkurflugvöll heldur áfram að aukast um tugi prósenta á milli ára og bilið milli íslensku flugfélaganna minnkar. Gera má ráð fyrir að um 155 þúsund erlendir ferðamenn hafi verið á landinu í mars. Flugumferðin um Keflavíkurflugvöll heldur áfram að aukast um tugi prósenta á milli ára og bilið milli íslensku flugfélaganna minnkar. Gera má ráð fyrir að um 155 þúsund erlendir ferðamenn hafi verið á landinu í mars.
SAS, Norwegian og easyJet eru þau erlendu flugfélög sem eru stórtækust í Íslandsflugi yfir vetrarmánuði og þannig hefur það verið um nokkurra ára bil. Í síðasta mánuði stóðu þessi þrjú flugfélög fyrir um 15 prósent af öllum áætlunarferðum til og frá landinu á meðan þrjár af hverjum fjórum ferðum voru á vegum Icelandair og WOW air.
Munurinn á umsvifum íslensku flugfélaganna tveggja verður hins vegar sífellt minna. Í mars árið 2014 var Icelandair til að mynda með 71,8% allra ferða frá Keflavíkurflugvelli en hlutfallið var 45,3% í síðasta mánuði eins og sjá má á skífuritinu hér fyrir neðan. 
Sem fyrr er umferðin til London mun meiri en til nokkurs annars áfangastaðar á þessum tíma árs. Lætur nærri að farnar hafi verið 10 áætlunarferðir á dag frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar til bresku höfuðborgarinnar en næst á eftir kemur Kaupmannahöfn en að jafnaði voru farnar um fjórar ferðir þangað á degi hverjum.
Stóra breytingin frá því í mars í fyrra er sú að nú er einnig boðið upp daglegt flug frá Keflavíkurflugvelli til Akureyrar en innanlandsflug hefur hingað til ekki staðið farþegum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar til boða nema í mjög takmörkuðu mæli yfir sumarmánuðina. Þessar áætlunarferðir Flugfélag Íslands eru þó aðeins fyrir farþega sem eru á leið í eða úr millilandaflugi.

Þriðjungi fleiri ferðamenn?

Í janúar og febrúar fjölgaði erlendu ferðafólki hér á landi um 59,5 prósent en miðað við hvert hlutfall túrista hefur verið í áætlunarflugi héðan í mars síðustu ár þá má gera ráð fyrir að héðan hafi flogið um 155 þúsund erlendir ferðamenn í síðasta mánuði. Þeim hefur þá fjölgað um rúmlega þriðjung frá því í mars í fyrra. Það kemur hins vegar í ljós hvort aukningin hafi verið meiri eða minna en þriðjungur þegar Ferðamálastofa birtir talningu sína fyrir marsmánuð síðar í þessari viku.