Forsvarsmenn Marriott Edition við Hörpu vilja ekki tjá sig um skattabreytingarnar

reykjavik vetur

Eftir um tvö ár stendur til að opna 250 herbergja glæsihótel við Hörpu í eigu Marrriott Edition hótelkeðjunnar. Þar á bæ vilja menn hins vegar ekki ræða áhrif boðaðar tvöföldunar á virðisaukaskatti á gistingu. Eftir um tvö ár stendur til að opna 250 herbergja glæsihótel við Hörpu í eigu Marrriott Edition hótelkeðjunnar. Þar á bæ vilja menn hins vegar ekki ræða áhrif boðaðar tvöföldunar á virðisaukaskatti á gistingu.
Færsla á ferðaþjónustunni upp í efsta þrep virðisaukaskattskerfisins hefur mætt mikilli andstöðu meðal forsvarsmanna greinarinnar. Framkvæmdastjóri Íslandshótela segir, í viðtali við RÚV, að fyrirtækið muni fresta hóteluppbyggingu í höfuðborginni komi til þessara hækkana og hótelstjóri Reykjavík Marina telur að með tvöföldun virðisaukaskatts muni reksturinn þyngjast. Skammt frá Reykjavík Marina og væntanlegu hóteli Íslandshótela við Lækjargötu er grunnurinn að Marriott Edition, fimm stjörnu hótelinu sem opna á við Hörpu síðla næsta ár. Bandarískir talsmenn þess vilja hins vegar ekki tjá sig um hugsanleg áhrif skattabreytinganna á reksturinn hér á landi þegar Túristi fór þess á leit.  
En verði áformin um skattahækkanirnar að veruleika þá hækkar virðisaukaskattur á gistingu úr 11% í 24% næsta sumar og niður í 22,5% í ársbyrjun 2019. Í haust þrefaldast svo gistináttagjaldið sem er 100 krónur í dag.

Opna nýtt hótel 14. hvern klukkutíma

Marriott keðjan er sú stærsta í heimi og telur um 6 þúsund hótel og þar af eru fjögur kennd við Edition og eru þau öll 5 stjörnu og flokkast sem „Boutique“ gististaðir. Auk hótelsins í Reykjavík er unnið að opnun Edition á nokkrum öðrum stöðum í heiminum.
Vöxtur Marriott keðjunnar hefur verið mjög hraður og áforma forsvarsmenn fyrirtækisins að taka í notkun átján hundruð ný hótel á næstu 3 árum samkvæmt frétt Standby. Það lætur þá nærri að keðjan muni vígja nýjan gististað á 14 klukkutíma fresti næstu árin og þar á meðal sitt fyrsta útibú á Íslandi, nánar tiltekið við Hörpu í Reykjavík.