Mekka grænmetisfæðisins í Zurich

Á næsta ári eru 120 ár liðin frá opnun elsta grænmetisveitingastaðar heims. Viðskiptin hafa sennilega aldrei blómstrað eins vel og þau gera akkúrat núna.

hiltl zurich
Mynd: Hiltl

Að gæða sér á Cordon Blue, kálfasteik með skinku, er klárlega eitt af því sem fjöldamargir ferðamenn í Zurich gæða sér á. Heimsókn á veitingastað Hiltl við Bahnhofstrasse er hins vegar líka skyldustopp fyrir þá sem vilja kynna sér matarkúltúr þessarar fjölmennustu borgar Sviss. Staðurinn hefur nefnilega sérhæft sig í grænmetisfæði allar götur frá árinu 1898 og ekkert veitingahús mun hafa verið jafn lengi í á þeirri línu.
Í dag er það fjórða kynslóð Hiltl ættarinnar sem er við stjórnvölinn og óhætt er að segja að gangurinn sé góður. Daglega borða nefnilega á veitingastöðum Hiltl á bilinu 2 til 5 þúsund manns og salan hefur aukist um helming síðustu ár og starfsmannafjöldinn margfaldast.

Grænmetisslátrari og bar

Og vinsældir Hiltl fara ekki framhjá þeim sem gengur inn á veitingastaðinn við Bahnhofstrasse því þar er bekkurinn oftast þéttskipaður. Þangað er fólk þó ekki bara komið til að borða heldur breytist staðurinn í einskonar klúbb þegar kvölda tekur. En það mun víst hafa reynt verulega á sambandið innan Hiltl ættarinnar þegar yngsta kynslóðin sótti um vínveitingaleyfi á sínum tíma og amman hneykslast víst enn á barnabörnunum.
Auk veitingastaðarins við eina þekktustu götu Zurich rekur Hiltl litla matvöruverslun þar sem hægt er kaupa tilbúna rétti sem margir hverjir líkjast kjötsteikum og pylsum enda hafa kannanir leitt í ljós að aðeins lítill hluti grænmetisæta segir skilið við kjöt vegna bragðsins eða áferðarinnar.
Icelandair býður upp á flug til Zurich allt árið en frá flugvellinum er aðeins stutt niður á aðallestarstöðina sem, eins og nafnið gefur til kynna, stendur við Bahnhofstrasse líkt og Hiltl.
Smelltu hér til að lesa vegvísi Túrista fyrir Zurich