Mikil fjölgun farþega á Akureyrarflugvelli

flugfelag islands

Nærri fjórðungi fleiri flugu til og frá Akureyri í mars sem er mun meiri viðbót en á öðrum innanlandsflugvöllum. Nærri fjórðungi fleiri flugu til og frá Akureyri í mars sem er mun meiri viðbót en á öðrum innanlandsflugvöllum.
18.544 farþegar fóru um Akureyrarflugvöll í síðasta mánuði sem er aukning um 3.460 farþega frá sama tíma í fyrra. Viðbótin fyrir norðan nemur 23% en farþegafjöldinn á Reykjavíkurflugvelli nam tíund samkvæmt tölum frá Isavia. Aukningin á Akureyrarflugvelli er því líklegast að mestu tilkomin vegna daglegra áætlunarferða þaðan til Keflavíkurflugvallar á vegum Flugfélags Íslands. Fyrsta ferð félagsins á þessari leið var farin í lok febrúar og mars var því fyrsti heili mánuðurinn þar sem þessi flugleið er starfrækt yfir vetur en um árabil hefur Flugfélag Íslands, í samtarfi við Icelandair, boðið upp á stakar ferðir yfir sumarmánuðina.

Mikilvæg tenging innanlands- og millilandaflugs

Flugleiðin milli Akureyrar og Keflavíkurflugvallar er þó ekki hefðbundið innanlandsflug því það er aðeins í boði fyrir farþega á leið í eða úr millilandaflugi. Farþegar geta þess vegna ekki farið út úr Leifsstöð við komuna þangað frá Akureyri heldur verða þeir að halda ferðinni áfram út í heim. Innanlandsflug er hins vegar víðast hvar hluti af starfsemi alþjóðaflugvalla og það á til að mynda við á helstu flugvöllum Norðurlanda. Og tenging innanlands- og millilandaflugs skiptir miklu máli fyrir ferðaþjónustu þessara landa líkt og kom fram í viðtölum Túrista við forsvarsmenn ferðamálaráða Finnlands, Danmerkur og Svíþjóðar sl. haust.

Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar stóð að farþegafjöldinn á Reykjavíkurflugvelli hafi staðið í stað. Það átti hins vegar við allan fyrsta ársfjórðung þessa árs. Á því tímabili fjölgaði hins vegar farþegum á Akureyri um 8,4%.