Ráðherrar ræða afnám gistináttaskatts eða færslu til sveitarfélaga

Mynd: Sigurjón Ragnar/sr-photos.com

Í haust þrefaldast gistináttaskatturinn en ráðherra ferðamála hefur lýst því yfir að hún vilji að hann verði felldur niður eða færður til sveitarfélaga í tengslum við flutning ferðaþjónustunnar upp í efsta þrep virðisaukaskattskerfisins. Tillaga um þess háttar breytingar mun hafa fengið jákvæð viðbrögð hjá fjármálaráðherra.

Hundrað króna gistináttaskattur hefur verið innheimtur á íslensku gististöðum síðustu fimm ár en upphæð gjaldsins fer upp í 300 krónur þann 1. september nk. Níu mánuðum síðar mun virðisaukaskattur á ferðaþjónustu svo ríflega tvöfaldast samkvæmt fjármálaáætlun Benedikts Jóhannssonar fjármálaráðherra. Þar með hækkar virðisaukaskattur á gistingu úr 11% í 24% en lækkar svo niður í 22,5% í ársbyrjun 2019.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, hefur hins vegar lýst því yfir að hún vilji sjá gistináttaskattinn felldan niður eða fluttan til sveitarfélaga samfara breytingum á virðisaukaskattskerfinu. Aðspurður um hvort unnið sé að þessum breytingum segir Ólafur Teitur Guðnason, aðstoðarmaður Þórdísar Kolbrúnar, að hún hafi rætt afnám skattsins og þann möguleika að sveitarfélögin fengju heimild til að leggja hann á við fjármálaráðherra og fengið jákvæð viðbrögð. Formleg vinna við útfærslu á tillögunni er þó ekki hafin en það verði væntanlega skoðað á næstunni segir í svari Ólafs Teits.

Hæstu skattar á ódýrari gistingu

Það tíðkast víða um heim að sveitarfélög innheimti sérstakan hótelskatt og ferðamenn í fjöldamörgum borgum í Frakklandi, Ítalíu, Þýskalandi og Sviss greiða þess háttar gjald að dvöl lokinni. Gistináttaskattar eru hins vegar ekki almennir í þeim löndum þar sem virðisaukaskattur á ferðaþjónustu er í efsta þrepi. Í Danmörku þar sem virðisaukinn er 25%, sá hæsti í Evrópu, mun sérstakt gistináttagjald ekki hafa verið til umræðu samkvæmt svari frá Horesta, samtökum hótel- og veitingageirans í Danmörku.
En þó virðisaukaskattur á dönskum hótelum verði áfram hærri en á þeim íslensku þá verður hlutfall skatta af ódýrari gistingu hærra hér á landi vegna gistináttagjaldsins eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan.