„Samstillt átak ríkisstjórnarinnar til að ganga að íslenskri ferðaþjónustu dauðri“

studiosus1

Það ríkir stjórnleysi í ferðaþjónustunni, að mati forráðamanns þýsku ferðaskrifstofunni Studiosus. Það ríkir stjórnleysi í ferðaþjónustunni, að mati forráðamanns þýsku ferðaskrifstofunni Studiosus. Þar á bæ telja menn að fyrst núna sé forsvarsfólk ferðamála á Íslandi til í að hlusta á varnaðarorð þeirra – hinsvegar skorti íslenska ráðamenn allan skilning á atvinnugreininni.
Ísland er eitt þeirra 120 landa sem ferðaskrifstofan Studiosus skipuleggur ferðir til og síðustu fjóra áratugi hafa hópar á vegum þessa þýska ferðaskipuleggjanda lagt leið sína hingað til lands. Manfred Schreiber fer fyrir deildinni sem sér um ferðir til Norður-Evrópu og þar með til Íslands. Hann hefur miklar áhyggjur af stöðu íslenskrar ferðaþjónustu og vill leggja sitt að mörkum til að leysa þau vandamál sem blasa við greininni.

Sjóndeildarhringur stjórnmálamanna nær ekki lengra en til Vestmannaeyja

„Allt frá því í haust hefur hægt verulega á þeim mikla vexti sem við höfum upplifað síðustu ár í eftirspurn eftir Íslandsferðum. Fyrir því kunna að vera margar ástæður en verðlagið á Íslandi er örugglega ein af þeim. Þess vegna lít ég á umræðuna um komugjöld, gistináttaskatta og boðaða hækkun á virðisaukaskatti sem samstillt átak ríkisstjórnarinnar til að ganga að íslenskri ferðaþjónustu dauðri. Vandamálið er að sjóndeildarhringur sumra stjórnmálamanna virðist ekki ná lengra en til Vestmannaeyja. Þeir horfa ekki til annarra markaða og skilja ekki að svona aðgerðir draga úr eftirspurn. En svo lengi sem Kínverjar og Bandaríkjamenn halda áfram að fjölmenna til landsins þá finna stjörnvöld ekki fyrir afleiðingunum. Ég er þó viss um að meira segja þessar þjóðir hafi sín takmörk,” segir Schreiber og það leynir sér ekki að það er þungt í honum hljóðið.

„Mallorca norðursins“

Á síðasta ári fjölgaði ferðamönnum hér á landi um 40 prósent og að mati Schreiber er það langt umfram það sem getur talist viðráðanlegt, svo vel megi vera. „Þessi gríðarlega aukning síðustu ár er eins og flóðbylgja sem skall á landinu án þess að það væri undir hana búið. Hótelin, vegirnir, rúturnar, ferðamannastaðirnir, leiðsögumennirnir og ýmislegt fleira stendur einfaldlega ekki undir öllum þessum fjölda.”
Og ímynd Íslands sem áfangastaðar er að breytast til hins verra að mati Schreiber. „Það er ekki er langt síðan að eitt útbreiddasta dagblað Þýskaland sagði Ísland vera „Mallorca norðursins” vegna mannmergðarinnar. Það hefði ekki verið hægt að fá verri umsögn því þetta er í algjörlega þverrt á þá ímynd sem Ísland hefur haft í huga Þjóðverja, sem land óspilltrar náttúru,“ segir Schreiber nefnir sem dæmi að einn daginn hafi fararstjóri Studiosus talið 81 rútu við Gullfoss síðastliðið sumar. „Það þýðir að það hafi verið þúsundir manna að skoða fossinn á sama tíma.”

Takast á við sameiginlegt vandamál

Þessar auknu vinsældir Íslands hafa orðið til þess að nú heimsækja hópar Studiosus til dæmis ekki lengur Jökulsárlón og í staðinn er farið á minna þekkta staði. Nú eru þeir líka að fyllast og Schreiber telur átroðninginn vera ástæðu þess að ferðaskrifstofunni berast nú fleiri neikvæð viðbrögð frá viðskiptavinum sínum og líka frá fararstjórum. „Þetta eru klárlega vísbendingar um slæma þróun og við höfum áhyggjur af framtíðinni. Þess vegna höfum við reynt að ná eyrum forsvarsmanna íslenskrar ferðaþjónustu um nokkurt skeið en það er ekki fyrr en núna að við finnum fyrir áhuga á að takast á við þetta sameiginlega vandamál okkar. Flestir, ef ekki allir, átta sig nefnilega á þessari slæmu stöðu en enginn hefur verið til í að horfast í augu við vandamálið.”

Stjórnmálafólkið verður að eiga frumkvæði

Schreiber hefur til að mynda talað fyrir því að sett verði á laggirnar ráðgjafanefnd sem í eiga sæti erlendir og íslenskri sérfræðingar sem geti komið að mótun framtíðarskipulags íslenskrar ferðaþjónustu. „Í dag ríkir nefnilega stjórnleysi í greininni. Sem dæmi um það þá bjóðast núna lægri farþegagjöld á Keflavíkurflugvelli og hafnirnar veita skemmtiferðaskipunum líka betri kjör. Það vantar stefnu til framtíðar og stjórnmálafólkið verður að eiga frumkvæði að henni, hvernig sér það ferðaþjónustuna fyrir sér eftir 5 ár eða 10? Við verðum að fá svar við þeirri spurningu,“ segir Schreiber að lokum.