Segir tillögur ráðherra ferðamála vera plástralækningar

thordis helga

Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar er ekki til í að skipta á niðurfellingu gistináttaskatts og tvöföldun virðisaukaskatts. Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar er ekki til í að skipta á niðurfellingu gistináttaskatts og tvöföldun virðisaukaskatts.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, hefur lýst því yfir að hún vilji sjá gistináttaskattinn, sem settur var á 2012, felldan niður eða fluttan til sveitarfélaga í tengslum við færslu ferðaþjónustunnar upp í efsta þrep virðisaukaskattskerfisins. Ráðherrann hefur rætt þessar tillögur við fjármálaráðherra sem mun hafa tekið jákvætt í þær líkt og Túristi greindi frá í morgun.
Aðspurð um þessar breytingar segist Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, að sjálfsögðu vera fylgjandi afnámi gistináttaskats og tilbúin í samtal við ráðherra um það. Að hennar mati er hins vegar ekki hægt að tengja þessar tvær skattabreytingar saman. „Afnám gistináttaskatts kemur ekki í staðinn fyrir tvöföldun á virðisaukaskatti. Til þess eru áhrifin svo gríðarlega ólík. Ráðherra ferðamála getur ekki falið sig á bak við tillögur um svona plástralækningar þegar ríkisstjórnin er að undirbúa að höggva svöðusár í ferðaþjónustuna í landinu.“

Þrefalt gistináttagjald í lok sumars

Formleg vinna við útfærslu tillögu Þórdísar Kolbrúnar um breytingar á gistináttaskatti er ekki hafin að sögn aðstoðarmanns ráðherrans en skatturinn nemur í dag 100 krónum á hverja gistieiningu. Hann hækkar upp í 300 krónur í haust. Þann 1. júlí á næsta ári mun svo virðisaukaskattur á ferðaþjónustu, og þar með gististaði, fara úr 11% í 24%. Í árbyrjun 2019 fer hann svo niður í 22,5% en Danmörk er eina landið í Evrópu með hærri virðisaukaskatt á ferðaþjónustu eða 25%.
TENGDAR GREINAR: Ósammála um kosti „skúravæðingarinnar“ við Kerið