WOW stefnir á margfalt hærri hlutdeild en Icelandair hefur

wow gma Friðrik Örn Hjaltested

Það er markmið forsvarsmanna WOW air að flytja sex milljónir farþega yfir Atlantshafið. Gangi það eftir verður félagið um fimmfalt umsvifameira á þessum markaði en Icelandair er í dag. Það er markmið forsvarsmanna WOW air að flytja sex milljónir farþega yfir Atlantshafið. Gangi það eftir verður félagið um fimmfalt umsvifameira á þessum markaði en Icelandair er í dag.
Árlega fljúga 60 milljónir farþega milli Evrópu og N-Ameríku og forsvarsmenn WOW air ætla sér tíu prósent hlutdeild á þessum markaði. Þetta kom fram í máli Daníels Snæbjörnssonar, forstöðumanns leiðakerfis WOW air, á Route Europe flugleiðaráðstefnunni sem nú fer fram í Belfast. Gangi þessar áætlanir WOW air eftir er ljóst félagið gæti orðið talsvert umsvifameira en Icelandair í flugi yfir hafið en þar var hlutdeild Icelandair um eitt prósent fyrir tveimur árum síðan en hefur að minnsta kosti tvöfaldast síðan þá. Í fyrra nam fjöldi skiptifarþega hjá Icelandair til að mynda nærri 2 milljónum. Samkvæmt frétt Routes Online sagði Daníel jafnframt að flugáætlun WOW air fyrir næsta vetur yrði 30 til 40 prósent umsvifameiri en á nýliðnum vetri.

Horft til 18 mánaða í einu

Bandaríski markaðurinn er sá mest aðlaðandi þessi misserin þegar kemur að flugi yfir hafið að mati Daníels en þar á eftir kemur sá kanadíski og svo Evrópa. Hins vegar telur hann að Bretar hafi gert sé óleik með því að kjósa með Brexit því sá markaður sé ekki eins „heitur“ og hann var. Hjá WOW air horfa menn þó ekki aðeins til flugs fyrir Atlantshafið því Daníel segir að innan fimm ára verði þotur WOW air farnar að fljúga til Asíu og annarra svæða. „Þá munum við hafa um 40 þotur i flugflota okkar. En það gæti verið of varlega áætlað“, sagði Daníel sem viðurkenndi að hjá WOW air væri þó fyrst og fremst horft til 18 mánaða í einu enda væri félagið ungt og í miklum vexti og því væri ekkert 10 ára plan til.

Bilið minnkar hratt

Fyrstu þrjá mánuðina í fyrra flugu nærri þrefalt fleiri farþegar með Icelandair en WOW air. Staðan hefur hins vegar breyst verulega því á fyrsta ársfjórðungi þessa árs er bilið á milli félaganna aðeins 22 prósent eins og sjá má á súluritinu hér fyrir neðan.
Bæði félög fjölga áfangastöðum sínum í Bandaríkjunum um tvo í ár. WOW air hóf flug til Miami í fyrr í þessum mánuði og fer svo jómfrúarferð sína til Pittsburgh í byrjun sumars. Á sama tíma fer Icelandair sína fyrstu ferð til Philadelphia og í haust bætir félagið svo Tampa í Flórída við áætlun sína.