Um 1,3 milljónir farþega milli Íslands og Bretlands

London Piccadilly Julian LoveLondon and Partners

Flugsamgöngurnar milli Íslands og Bretlands hafa aukist hratt síðustu ár og í fyrra fjölgaði farþegunum um þriðjung. Flugsamgöngurnar milli Íslands og Bretlands hafa aukist hratt síðustu ár og í fyrra fjölgaði farþegunum um þriðjung.
London er sú borg sem langoftast er flogið til frá Keflavíkurflugvelli og stendur umferðin þangað undir um fimmtungi af öllum áætlunarferðum frá Íslandi. Einnig er flogið héðan reglulega til sjö annarra breskra borga og oftar en ekki ríkir samkeppni á þessum flugleiðum.
Þannig bjóða 5 flugfélög upp á áætlunarferðir til London og farþegar á leið til Edinborgar, Manchester, Bristol og Belfast geta valið úr ferðum tveggja flugfélaga. Icelandair er hins vegar eitt um flugið til Glasgow og Aberdeen.

Gatwick aðal samgönguæðin

Til allra þessara staða er flogið allt árið um kring og í fyrra flugu nærri 1,3 milljónir farþega á milli Íslands og Bretlands samkvæmt tölum frá breskum flugmálayfirvöldum. Það er aukning um 318 þúsund farþega frá því í hittifyrra og nemur viðbótin um þriðjungi. Langflestir farþeganna fara um Gatwick flugvöll eða um 405 þúsund en hundrað þúsund færri nýta sér flugið frá Heathrow eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan. Til samanburðar fóru hins vegar 534 þúsund farþegar milli Keflavíkurflugvallar og Kaupmannahafnar í fyrra en í dönsku höfuðborginni fer öll umferðin um einn flugvöll en ekki nokkra líkt og í London.
Hafa ber í huga að hver farþegi er talinn við komuna til Bretlands og líka á leiðinni frá landinu.

Fleiri ferðir í ár

Það sem af er þessu ári hefur flugfarþegum milli landanna tveggja haldið áfram að fjölga í takt við að tíðni brottfara eykst. Og í pípunum eru ennþá fleiri ferðir, þannig hefja systurfélögin Icelandair og Flugfélag Íslands flug til George Best flugvallar í Belfast í byrjun júní og líkt og Túristi greindi frá í gær þá ætla forsvarsmenn easyJet að bæta við ferðum hingað frá London næsta vetur. Þar með verður Icelandair ekki lengur það félag sem býður upp á flestar ferðir milli Íslands og höfuðborgar Bretlands. Stór hluti þeirra farþega sem Icelandair og WOW flytja milli landanna tveggja eru hins vegar skiptifarþegar á leið milli N-Ameríku og Evrópu. Og vegna þess hve ferðirnar eru tíðar hingað frá Bretlandi þá er flugið vel nýtt af ferðamönnum frá fleiri löndum en Bretlandi. Stór hluti farþeganna í Íslandsflugi British Airways kemur til að mynda frá Kína líkt og kom fram hér á síðunni nýverið.
Opinberar tölur um fjölda þeirra Íslendinga sem nýta sér áætlunarflugið til Bretlands liggja ekki fyrir og sömu sögu er að segja um upplýsingar um gistinætur íslenskra túrista á breskri grundu.