App fyrir ferðamenn sem ætla að keyra um landið

icelandtravel app

Viðskiptavinir Iceland Travel fá nú afhendar spjaldtölvur í stað útprentaðra ferðagagna áður en þeir hefja Íslandsreisuna. Viðskiptavinir Iceland Travel fá nú afhendar spjaldtölvur í stað útprentaðra ferðagagna áður en þeir hefja Íslandsreisuna. 
Ferðaþjónustufyrirtækið Iceland Travel hefur gefið út app sem kallast Iceland Travel Companion og er það hugsað fyrir þá sem ætla að keyra sjálfir um landið. „Fólk frá öllum heimshornum sækir í að ferðast um Ísland í bílaleigubíl og það leitast eftir að upplifa fegurð íslenskrar náttúru og fræðast um sögu landsins. Markmiðið með appinu er að sjálfsögðu að gera ferðalagið enn auðveldara og skemmtilegra fyrir viðskiptavini okkar,” segir Jón Heiðar Þorsteinsson, markaðsstjóri Iceland Travel, í tilkynningu.

Kemur í staðinn fyrir prentuð gögn í þúsundatali

Viðskiptavinir Iceland Travel fá appið og spjaldtölvu afhent í upphafi ferðar og kemur þetta í staðinn fyrir prentuð ferðagögn sem ferðamenn fengu áður. Þau voru samansett af ferðahandbók og bækling um viðkomandi ferð ásamt upplýsingablaði um gistingu. „Við prentuðum þessi gögn í þúsundatali og það er ánægjulegt að geta minnkað þessa prentun mjög verulega og afhent margnota spjaldtölvur í staðinn,“ segir Jón Heiðar. Appið inniheldur líka ferðabækur á fimm tungumálum en Iceland Travel býður upp á  38 mismunandi akstursleiðir um Ísland.

Tækifæri í Akureyrarflugi

Aðspurður um hvort hann sjái breytingar á óskum þess hóps ferðamanna sem kýs að ferðast um landið í bílaleigubíl segir Jón Heiðar að það sé ánægjulegt hversu aukinn áhugi er á þess háttar ferðum utan háannatíma. Hann telur jafnframt að beint flug Air Iceland Connect milli Keflavíkurflugvallar og Akureyrar skapi ný tækifæri í vöruþróun á þessu sviði. Viðskiptavinirnir geti þá til að mynda hafið ferðalagið fyrir norðan og endað það í höfuðborginni eða öfugt.