Farþegaspáin hefur staðist

Á fyrsta þriðjungi ársins hafa ríflega helmingi fleiri farið Flugstöð Leifs Eiríkssonar en á sama tímabili í fyrra. Á fyrsta þriðjungi ársins hafa ríflega helmingi fleiri farið Flugstöð Leifs Eiríkssonar en á sama tímabili í fyrra. Þetta er í takt við áætlanir Isavia og þar á bæ er áfram gert ráð fyrir minnkandi vexti í sumar og haust.
Farþegum á Keflavíkurflugvelli hefur fjölgað um 45 til 70 prósent á milli mánaða í ár og í lok apríl höfðu samtals 2.182.817 farþegar farið um flughöfnina. Það er aðeins 0.3% yfir farþegaspá Isavia fyrir þetta ár en í henni er gert ráð fyrir að vöxturinn í maí nemi rúmlega þriðjungi. Hins vegar ætti að draga úr aukningunni í sumar og segir Gunnar K. Sigurðsson, markaðsstjóri Isavia, að spáin fyrir sumarið sé óbreytt. Samkvæmt henni mun farþegum í júní fjölga um fimmtung en viðbótin í júlí og ágúst verður 17%. Síðustu fjóra mánuði árs mun farþegum svo fjölga um 20 til 23 prósent standist spá Isavia eins vel það sem eftir lifir árs og hún hefur gert hingað til.

Biðtímar styttast

Þrátt fyrir að um 800 þúsund fleiri farþegar hafi um Flugstöð Leifs Eiríkssonar í ár segir Gunnar að biðtímar í öryggisleit hafi styst. Nú bíða um 95% allra farþega innan við 15 mínútur við vopnaleit og þessa dagana er verið að gera endurbætur og breyta vinnuaðferðum sem eigi að stytta biðina enn frekar. Vinnu við þessar breytingar ætti að ljúka í lok vikunnar.
Hversu langan tíma það tekur að innrita sig í flug frá Keflavíkurflugvelli er ekki mælt sérstaklega en hins vegar er ánægja farþega með þann hluta ferðalagsins könnuð og mun hún almennt vera mikil en minnkar aðeins þegar álagið er mest á morgnana og á kvöldin. Það sama gerist í kringum álagstíma á sumrin en auknir möguleikar á sjálfsafgreiðslu í innritunarsalnum eiga að verða til þess að biðtími styttist samkvæmt svari Gunnars.

Nýr rekstraraðili kynntur innan skamms

Nýverið auglýsti Isavia eftir aðilum til að reka tímabundnar verslanir eða veitingastaði á annarri hæð suðurbyggingar flugstöðvarinnar. Þessa dagana er verið að fara yfir umsóknir og verða niðurstöður kynntar á næstunni enda er gert ráð fyrir að sá aðili sem verður fyrir valinu hefji rekstur nú í sumarbyrjun og hafi plássið til afnota fram í lok nóvember. Þá tekur við nýtt tímabil sem stendur fram til 1. maí á næsta ári og rennur umsóknarfresturinn fyrir þennan tíma út þann 15.júní.