Er fjöldi erlendra ferðamanna ofmetinn?

Hver er ástæðan fyrir því að á sama tíma og fjöldi kanadískra ferðamanna þrefaldast þá fækkar gistinóttum Kanadamanna hér á landi? Skýringin kann að liggja í því að skiptifarþegar á eigin vegum séu orðnir miklu stærri hópur á Keflavíkurflugvelli en áður. Þeir eru nefnilega taldir sem erlendir ferðamenn.

erlendir ferdamenn

Fyrstu þrjá mánuði ársins fjölgaði ferðamönnum hér á landi um 53,7 prósent. Aukningin á fyrsta ársfjórðungi hefur numið á bilinu 31 til 39 prósentum síðustu ár. Þrátt fyrir ríflega helmingi fleiri ferðamenn þá fjölgaði gistinóttum útlendinga á íslenskum hótelum um aðeins 26 prósent á sama tíma.

Hlutfallslega aukning gistinótta og ferðamannafjölda var hins vegar sambærileg á fyrsta ársfjórðungi í fyrra og hittifyrra.

Styttri dvalartími ferðafólks hér á landi er líklega ein helsta skýringin á þessari þróun en líkt og fram hefur komið þá hefur lengd Íslandsferða styst síðustu misseri. Aukin ásókn í annars konar gistingu en hótel kann líka að skýra breytinguna en tölur Hagstofu um gistinætur í ár byggja aðeins á upplýsingum frá hótelum en ekki gistiheimilum, farfuglaheimilum og engar tölur eru til frá Airbnb og fyrirtækjum sem miðla heimagistingu.

Stóraukning tengifarþega

Talning ferðamanna á Keflavíkurflugvelli fer fram við vopnaleitina á Keflavíkurflugvelli og þar með eru allir sem í gegnum hana fara með erlend vegabréf taldir sem túristar. Líka útlendingar sem búsettir eru á Íslandi í lengri eða skemmri tíma en í því samhengi má hafa í huga að erlendu starfsfólki hefur fjölgað hér á landi undanfarið.

Það skekkir líklega einnig talningu Ferðamálastofu að farþegi sem kemur til landsins með einu flugfélagi og heldur beint áfram með öðru félagi er líka talinn sem ferðamaður ef hann þarf að sækja farangurinn sinn og innrita sig i flug á ný í Leifsstöð. Og miðað við hvað framboð á flugi héðan hefur aukist hratt þá má telja líklegt að sífellt fleiri útlendingar fái val um tengiflug í gegnum Ísland upp í flugleitarvélum.

Héðan er til að mynda flogið til fleiri áfangastaða í N-Ameríku en þekkist á stærstu flughöfnum Norðurlanda. Þannig getur Finni á leið frá Helsinki til San Francisco tengt saman flug Icelandair og WOW air og Berlínarbúi sem ætlar til Orlando getur líka tengt saman flug íslensku félaganna. Sömu sögu er að segja um þann sem ætlar milli Denver og Dublin og svo mætti lengi áfram telja.

Í öllum tilvikum getur þessi hópur farþega hins vegar ekki innritað farangurinn sinn alla leið og þarf því að sækja hann við komuna til Keflavíkurflugvallar og innrita sig á ný. Þetta á líka við um langflesta þá farþega sem koma hingað með erlendu flugfélagi og halda svo áfram beint með íslensku félagi til N-Ameríku.

Þessir farþegar eru allir taldir sem erlendir ferðamenn á Íslandi jafnvel þó þeir hafi aldrei farið út úr Leifsstöð. Og það eru vísbendingar um að sífellt fleiri útlendingar séu taldir sem ferðamenn þó þeir stoppi ekki hér yfir nótt.

Sem dæmi má nefna að fjöldi kanadískra ferðamanna þrefaldaðist á fyrsta ársfjórðungi samkvæmt talningu Ferðamálastofu en hins vegar fækkaði kanadískum gistinóttum á íslenskum hótelum um 12 prósent á sama tíma.

Frönskum ferðamönnum fjölgaði um 61 prósent en hins vegar var aukningin í gistinóttum Frakka aðeins 14 prósent. Þýskum hótelnóttum fjölgaði jafn mikið og frönskum en það fóru hins vegar 71,5 prósent fleiri Þjóðverjar í gegnum talningu Ferðamálastofu. Sem fyrr segir kann skýringin á þessum mikla mun að liggja í styttri dvöl eða að þessar þjóðir leiti í stórauknum mæli í aðra gistingu en hótel bjóða.

Norski flugforstjórinn talinn sem ferðamaður

Enginn veit þó hver fjöldi þessara skiptifarþega er og hvort þeir valdi mikilli skekkju í ferðamannatalningunni samkvæmt þeim svörum sem Túristi hefur fengið frá flugfélögum og hagsmunaðilum. Þessi farþegahópur er nefnilega á eigin vegum og flugfélögin þekkja ekki hvort fólkið sem kemur um borð í vélarnar á Keflavíkurflugvelli hafi stoppað hér á landi eða ekki.

Nema þetta séu Stopover farþegar Icelandair og WOW sem ferðast með sama félaginu alla leið. Sá hluti farþega kann líka að hafa stóraukist með tilkomu Ameríkuflugs WOW air og til að mynda hefur lengi verið lögð áhersla á þessa þjónustu í markaðsstarfi Icelandair.

Eitthvað vita menn þó því í viðtali við Túrista haustið 2013 sagði Bjørn Kjos, forstjóri flugfélagsins Norwegian: „Við vitum að margir af þeim farþegum sem fljúga með okkur frá Osló til Keflavíkur nýta sér tengingu Icelandair til Bandaríkjanna.“ Kjos bætti því við að hann sjálfur flygi til dæmis alltaf með Icelandair til Seattle til fundar við Boeing flugvélaframleiðandann. Og ef hann ferðast með meira en handfarangur þá þarf forstjórinn að sækja töskurnar á Keflavíkurflugvelli, innrita sig í flug hjá Icelandair og fara í vopnaleitina. Þar með er hann talinn sem norskur ferðamaður.