Miklu ódýrari farmiðar til Ítalíu

trieste castello Miramare photo marco milani

Í lok maí hefst áætlunarflug milli Íslands og Trieste og í dag kostar ódýrasta farið, báðar leiðir, 23 þúsund krónum minna en þegar sala hófst á fluginu fyrir nærri einu ári síðan. Í lok maí hefst áætlunarflug milli Íslands og Trieste og í dag kostar ódýrasta farið, báðar leiðir, 23 þúsund krónum minna en þegar sala hófst á fluginu fyrir nærri einu ári síðan.
Flugsamgöngur milli Íslands og Ítalíu hafa lengi verið af skornum skammti og til að mynda verður Rómarflug WOW air og Vueling ekki á boðstólum í sumar. Áfram fljúga þó Icelandair og WOW air til Mílanó og í ár bryddar Primera Air upp á þeirri nýbreytni að fljúga héðan vikulega til Trieste á norðausturhluta Ítalíuskagans, rétt við landamærin að Slóveníu.
Sala á farmiðunum þangað hófst í júlí í fyrra og á þeim tíma kostaði ódýrasta farið, báðar leiðir, um 53 þúsund krónur líkt og Túristi greindi frá. Þá var ennþá tæpt ár í jómfrúarferðina til Trieste en núna, þegar sumarvertíðin er að hefjast, kosta ódýrustu sætin 14.999 kr. í nær allar brottfarir Primera air til Ítalíu í sumar. Heimferðirnar eru á sama verði og farmiði báðar leiðir er því á rétt um 30 þúsund krónur. Lægstu fargjöldin hafa því lækkað um 43 prósent frá því áætlunarflugið til Trieste fór í sölu. 
Hafa ber í huga að borga þarf aukalega 4.900 kr. fyrir innritaðar töskur hjá Primera Air.

Vel staðsett fyrir flakk

Sem fyrr segir er framboð á flugið héðan til Ítalíu lítið og aðeins stök leiguflug í boði til Slóveníu en frá miðborg Trieste eru aðeins 10 kílómetrar að landamærum landanna tveggja. Feneyjar eru svo einn og hálfan tíma frá flugvelli borgarinnar og staðsetning hennar býður upp á mörg tækifæri fyrir þá sem vilja keyra um þennan hluta Evrópu.
Og samkvæmt athugun Túrista þá eru kjörin á bílaleigunu við flugvöllinn í Trieste aðeins hagstæðari en í Mílanó. Leiga á bíl seinni partinn í júní kostar að lágmarki 20 þúsund en er tvöfalt dýrari fyrir þá sem verða á ferðinni seinni hlutann í júlí. Þeir sem vilja búa í sveitagistingu á Ítalíu hafa svo úr töluverðu að moða á vef Agriturismo.