Í fyrsta skipti áætlunarflug til Ísrael

wow gma Friðrik Örn Hjaltested

Þotur WOW air munu fljúga til Tel Aviv fjórum sinnum í viku en aldrei áður hefur verið í boði beint flug milli landanna tveggja. Þotur WOW air munu fljúga til Tel Aviv fjórum sinnum í viku en aldrei áður hefur verið í boði beint flug milli landanna tveggja. Ísraelar hafa hingað til aðallega sótt Ísland heim á sumrin og gista helst á Suðurlandi.
WOW air mun hefja áætlunarflug til Tel Aviv í Ísrael þann 12. september en líkt og Túristi greindi frá í desember þá var sótt um afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli fyrir beint flug þaðan til ísraelsku borgarinnar í tengslum við gerð loftferðasamnings milli landanna tveggja. Sala flugsæta hefst á morgun samkvæmt tilkynningu frá WOW air og þar segir jafnframt að flogið verði fjórum sinnum í viku, á þriðjudögum, miðvikudögum, föstudögum og sunnudögum. „Aldrei fyrr hefur verið boðið upp á beint áætlunarflug til Ísrael frá Íslandi og það er gaman að geta átt þátt í því að marka tímamót í íslenskri flugsögu. Ísrael er land mikillar menningar og það fá farþegar okkar að upplifa á frábærum verðum, í glænýjum flugvélum,“ segir Skúli Mogensen forstjóri og eigandi WOW air, í tilkynningu.  
Flugferðin héðan til Ben Gurion flugvallar í Tel Aviv mun taka um 7 klukkutíma.

Vilja fjölga flugleiðum til landsins

Tel Aviv er næst stærsta borg Ísrael og státar af fögrum ströndum og iðandi mannlífi. Þaðan er hægt að fara í dagsferðir á merka staði á borð við Dauðahafið, Jerúsalem og Bethlehem. Loftslagið í Ísrael er hlýtt og milt en meðalhiti þar allt árið um kring er um 20 gráður. Ágúst mánuðurinn er almennt sá hlýjasti þar sem meðalhitinn getur farið upp í 30 gráður. „Við bjóðum WOW air velkomið til Ísrael en við höfum lagt mikla áherslu á að fjölga flugleiðum til Ísrael. Ég er viss um að þessi nýja leið muni leiða til aukningar á ferðamönnum til Ísrael frá Íslandi, Bandaríkjunum og Kanada sem er í takt við þá þróun sem við höfum séð síðastliðna mánuði,“ segir Yariv Levin ferðamálaráðherra Ísraels í tilkynningu frá WOW.

Gista helst á Suðurlandi

Ísraelskir ferðamenn eru ekki teknir með í talningu Ferðamálastofu á Keflavíkurflugvelli en samkvæmt tölum Hagstofunnar þá keyptu Ísraelar nærri 33 þúsund gistinætur hér á landi í fyrra. Fjölgaði nóttunum lítilega milli ára en athygli vekur að Ísraelar gista mun frekar út á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Þannig er um fimmta hver nótt sem ísraelskir ferðamenn bóka hér á landi í höfuðborginni en þriðja hver á Suðurlandi. Þannig hefur það verið síðustu tvö ár en árið 2014 voru gistinæturnar á Suðurlandi jafn margar og í Reykjavík. Hins vegar hafa Íslandsferðir Ísraela takmarkast við hásumarið og hafa þeir til að mynda nýtt sér vel sumarflug Lufthansa hingað til lands líkt og kom fram í viðtali Túrista við framkvæmdastjóra þýska flugfélagsins.