Flugfélag Íslands tekur upp nýtt nafn

airicelandconnect

Eitt alþjóðlegt nafn í stað þess að notast við íslenskt og erlent heiti. Eitt alþjóðlegt nafn í stað þess að notast við íslenskt og erlent heiti.
Flugfélag Íslands hefur notast við heitið Air Iceland á erlendum mörkuðum en frá og með deginum í dag fellur íslenska heitið niður og í staðinn heitir félagið Air Iceland Connect. Aukin umsvif á erlendum mörkuðum og umtalsverða fjölgun erlendra ferðamanna eru meðal ástæðna fyrir nafnabreytingunni að því segir í tilkynningu. Eins einfaldar þetta markaðsstarf félagsins en hið tvöfalda nafnakerfi hefur haft í för með sér kostnaðarauka og valdið einhverjum farþegum óþægindum og orsakað misskilning.

Aukið millilandaflug

„Við höfum notað nafnið Air Iceland um árabil en með því að bæta við orðinu Connect, eða tengja, sýnum við tengingu við íslenska náttúru og áfangastaði, tengingu við okkar erlenda áfangastaði á borð við Grænland, Skotland og Norður-Írland og aðgreinum okkur aðeins frá Icelandair. Þetta er lýsandi nafn, alþjóðlegt og við erum sannfærð um að þetta muni leiða til sterkara vörumerkis á þeim alþjóðamarkaði sem flugsamgöngur vissulega eru “ segir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Air Iceland Connect, í tilkynningu.
Hann bætir því við að unnið hafi verið að breytingum um nokkurt skeið, til að mynda hafi flugflot fyrirtækisins verið endurnýjaður, ferðum til Grænlands fjölgað og samstarfið við Icelandair aukið. En systurfélögin halda sameiginlega uppi áætlunarflugi til Aberdeen og sami háttur verður hafður á í flugi til Belfast sem hefst í næsta mánuði. Air Iceland Connect hefur einnig stóraukið flug sitt milli Akureyrar og Keflavíkurflugvallar.