Íslenskir bjórframleiðendur verða af mikilli sölu í Fríhöfninni

frihofnin

Hlutdeild bjórs af áfengissölu í Fríhöfninni hefur dregist saman allar götur frá því að farþegum í Fríhöfninni var leyft að leggjast í sortir. Hlutdeild bjórs af áfengissölu í Fríhöfninni hefur dregist saman allar götur frá því að farþegum í Fríhöfninni var leyft að leggjast í sortir.
Í sumarbyrjun var reglum um áfengiskaup ferðamanna breytt á þann veg að nú geta þeir nýtt allan tollinn til kaupa á aðeins sterku áfengi, léttvíni eða bjór. Áður þurfti að blanda saman tegundum í samræmi við fimm ólíkar samsetningar. Fyrir þessa breytingu var í mesta lagi hægt að kaupa einn lítra af sterku áfengi en nú er hámarkið 1,5 lítrar og sá sem vill eingöngu vín getur nú tekið 6 flöskur í stað fjögurra. Á sama hátt getur ferðamaður sem aðeins kýs bjór keypt sex hálfs lítra kippur af öli en áður var hámarkið 4 kippur.

Fleiri farþegar en minni bjórsala

Þessar breytingar hafa haft það í för með sér að sala á bjór hefur dregist saman líkt og Túristi greindi frá í haust. Sú þróun hélt áfram í vetur því þrátt fyrir að farþegum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar hafi fjölgað frá því að nýju tollareglurnar tóku gildi þá er bjórsala í Fríhöfninni ögn minni en á sama tíma í fyrra. Hlutdeild bjórs af áfengissölu hefur þannig dregist saman um 8 til 10 prósent eftir mánuðum samkvæmt upplýsingum frá Fríhöfninni.

Á mis við 2000 bjórflöskur á dag

Fyrir tollkvótabreytingu var aukning í bjórsölu í takt við aukna farþegafjölgun. Ef sú þróun hefði haldið áfram væri búið að selja um 180 þúsund fleiri lítra af bjór en raun ber vitni. Bróðurpartur alls bjórs sem seldur er í Fríhöfninni er íslenskur og því má segja að ölframleiðendur hér á landi verði af 245 þúsund lítra sölu á ári vegna þeirra breytinga sem nýjar tollareglur hafa á kauphegðun viðskiptavina Fríhafnarinnar. 245 þúsund lítrar eru ígildi 735 þúsund ölflaskna og að jafnaði fara því innlendir bjórframleiðendur á mis við sölu á um 2 þúsund flöskum eða dósum á dag í Fríhöfninni. En í stað bjórsins hefur sala á léttvíni aukist og aðallega á rauðvíni sem er, eins og gefur að skilja, allt innflutt.