Hefðbundið gistináttagjald skilar álíka miklu og hátt komugjald

Ef gistináttaskattur hér á landi væri álíka og á meginlandi Evrópu yrðu tekjurnar af honum svipaðar og af komugjaldi sem er helmingi hærra en þekkist í Noregi. Þessar tvær leiðir leggjast líka misþungt á heimamenn.

hotelrum nik lanus

Fimmtán hundruð króna komugjald á hvern farþega í millilandaflugi hefði skilað tæpum þremur og hálfum milljarði króna í fyrra samkvæmt svari Benedikts Jóhannessonar, fjármálaráðherra, við fyrirspurn Oddnýjar Harðardóttur, þingmanns Samfylkingarinnar. Komugjald upp á 1.500 kr. er hins vegar töluvert hærra en það gjald sem nýverið var sett á í Noregi og stendur til að setja í Svíþjóð. Í báðum löndum er miðað við 80 þarlendar krónur sem jafngildir um 930 til 960 íslenskum krónum ef miðað er við gengið í dag. Upphæðin er hins vegar um 1100 krónur ef gjaldið er reiknað út frá meðalgengi norsku krónunnar í fyrra. Íslenska komugjaldið í dæmi Oddnýjar og Benedikts er því um helmingi hærra en þekkist hjá frændþjóðunum. Tekjur af komugjaldi hér á landi, sem væri jafnhátt og það norska, hefðu hins vegar orðið um 2,5 milljarðar á síðasta ári. Einum milljarði minna en gert er ráð fyrir í útreikningum fjármálaráðherra.

Tvöfalt gjald í innanlandsflugi

Í Noregi var komugjaldið einnig sett á innanlandsflug og Svíar hyggjast fara sömu leið. Sú ákvörðun hefur verið gagnrýnd í báðum löndum og sérstaklega út á landsbyggðinni enda leggst komugjaldið á báða leggi í innanlandsflugi á meðan farþegi í alþjóðaflugi borgar aðeins gjaldið þegar lent er í Noregi eða Svíþjóð. Það er hins vegar ekki öruggt að það þurfi að leggja sömu álögur á innanlandsflug og á millilandaflug. Í fyrrnefndu svari fjármálaráðherra segir að þetta sé vafamál sem velti á alþjóðlegum skuldbindingum og þá sérstaklega EES samningnum. Samkvæmt svari frá Samtökum evrópskra flugfélaga, A4E, við fyrirspurn Túrista, þá getur hvert land fyrir sig lagt á skatta eða gjöld sem ákvarðast út frá fluglengd en hins vegar má ekki mismuna farþegum eftir þjóðerni. Íslendingar jafnt sem útlendingar yrðu að greiða gjaldið hvort sem það yrði aðeins sett í millilandaflugi eða líka á flug innanlands.
Af þeim 3,5 milljörðum sem komugjald á farþega á Keflavíkurflugvelli hefði skilað í fyrra þá hefðu íslenskir farþegar greitt um 23% eða 800 milljónir. Íslendingar hefðu hins vegar greitt hlutfallslega meira ef innanlandsflug væri tekið með í reikninginn því þar eru þeir bróðurpartur farþeganna og eins myndi komugjaldið leggjast tvöfalt á flugferðir milli innlendra flugvalla líkt og raunin er í Noregi og Svíþjóð.

Mishár gistináttaskattur milli landa

Í ársbyrjun 2012 var lagður á gistináttaskattur hér á landi sem nemur 100 krónur á hverja gistieiningu og skilaði sú skattheimta 390 milljónum í fyrra samkvæmt fjáraukalögum fyrir 2016. Hefði gistináttaskatturinn hins vegar verið innheimtur á hvern hótelgest, líkt og tíðkast víða annars staðar, þá hefður tekjurnar af gistináttaskatti geta orðið miklu hærri. Ef gjaldheimtan yrði með sama sniði og í París þá hefðu hún skilað 1,3 milljarði auk 150 milljóna úr óskráðri gistingu eins og Airbnb. Í Róm eru ferðamenn rukkaðir mun meira en gengur og gerist í Evrópu og ef fordæmi Rómarbúa yrði fylgt hefðu tekjur íslenska ríkisins af gistináttaskatti verið 3,9 milljarðar í fyrra en 4,5 milljarðar ef gestir á vegum Airbnb og sambærilegra fyrirtækja yrðu einnig látnir standa skil á skattinum. Ef millivegurinn væri farinn og gistináttagjald að hætti Svisslendinga tekið upp myndi það skila 2,7 til 3,4 milljörðum. Í Sviss er virðisaukaskattur á gistingu hins vegar aðeins 3,8% en 10% í Frakklandi og Ítalíu. Hér á landi er vaskurinn 11% en hann fer upp í 24% á næsta ári og svo niður í 22,5% 1. janúar 2019. Gistináttagjaldið þrefaldast hins vegar í haust.

Leggst ekki eins þungt á heimamenn

Eins og fram kom í svari fjármálaráðherra þá hefðu íslenskir farþegar staðið undir um 23% af tekjum af komugjöldum ef upphæð þess væri fimmtán hundruð krónur. Fjögurra manna íslensk fjölskylda myndi þá greiða aukalega 6000 krónur í hvert skipti sem hún myndi lenda á Keflavíkurflugvelli og 12 þúsund krónur ef flogið væri frá Reykjavík til Egilsstaða. Vægi íslenskra hótelgesta er hins vegar mun lægra en íslenskra farþega í millilandaflugi eða 13% samkvæmt talningum Hagstofunnar. Yrði gistináttagjaldið hér á landi líkt og þekkist í Róm myndi íslenska fjölskyldan greiða aukalega 2200 krónur á hverja nótt á íslensku þriggja stjörnu hóteli en tæpar þúsund krónur ef gjaldið yrði álíka og í París.