Hagstofan kannar sveiflur í gistináttatölum

hotelrum nik lanus

Á sama tíma og ferðamönnum fjölgar um meira en helming þá nemur hlutfallslega aukning gistinátta aðeins fjórðungi. Á sama tíma og ferðamönnum fjölgar um meira en helming þá nemur hlutfallslega aukning gistinátta aðeins fjórðungi. Áður fylgdust þessar tvær lykiltölur í ferðaþjónustunni hins vegar að. Isavia, Ferðamálastofa og Hagstofan kanna ástæður þessa.
Fyrstu þrjá mánuði ársins þrefaldaðist fjöldi kanadískra ferðamanna hér á landi en á sama tíma varð 12 prósent samdráttur í gistinóttum Kanadamanna hér á landi. Í heildina þá hefur ferðamönnum hér á landi fjölgað um rúmlega helmingi í ár en gistinætur útlendinga hafa aukist um fjórðung. Þróunin á þessum lykilstærðum hefur hins vegar haldist hönd í hönd síðustu ár líkt og Túristi greindi frá og sjá má á grafinu hér fyrir neðan. 
Það er Hagstofa Íslands sem safnar saman upplýsingum um gistinætur og samkvæmt sérfræðingi stofnunarinnar þá hefur verið fylgst vel með þeirri umræðu sem skapast hefur um þessar sveiflur og verið er að skoða þær. Tölur Hagstofunnar byggja á upplýsingum frá hótelunum sjálfum þar sem gistinætur eru flokkaðar eftir þjóðernum.

Isavia hyggst gera athugun

Styttri Íslandsferðir, aukin ásókn í óskráða gistingu og fjölgun erlends vinnuafls hafa verið nefndar sem hugsanlegar ástæður þess að ferðamönnum fjölgar svona miklu meira en gistinóttum útlendinga. Í úttekt Túrista var einnig bent á að mögulega væri fjölgun skiptifarþega að valda meiri skekkju í tölunum en áður. Er þá verið að horfa til þeirra farþega sem þurfa að skipta um flugfélag á Keflavíkurflugvelli á leið yfir hafið en sá hópur þarf að sækja farangur sinn við komuna til landsins og innrita sig á ný. Þar með fara farþegarnir í gegnum vopnaleit og eru taldir sem erlendir ferðamenn jafnvel þó þeir hafi aldrei farið út úr Leifsstöð. Tengifarþegar Icelandair og WOW air eru hins vegar ekki taldir sem ferðamenn þar þeir geta innritað farangurinn sinn alla leið ef þeir fljúga alla leið með sama flugfélaginu. Í kjölfar greinar Túrista sendi Ferðamálastofa og Isavia frá sér sameiginlega yfirlýsingu en þar sem meðal annars kemur fram að það er mat forsvarsmanna Isavia að farþegar sem tengja sjálfir á milli flugfélaga hafi í gegnum tíðina ekki verið að valda skekkju í þjóðernatalningunum svo neinu nemi. Isavia mun hins vegar gera sérstaka úttekt á næstunni til að meta þessa áhrifaþætti betur.

Hátt í þreföldun í leit að millilendingum á Keflavíkurflugvelli

Flugumferð til og frá Keflavíkurflugvelli hefur aukist verulega í ár og þar með verður millilending hér á landi fýsilegri kostur fyrir fleiri farþega á leið milli Evrópu og N-Ameríku. Alls kyns leitarsíður einfalda leitina að þess háttar flugi og samkvæmt svari frá Kayak, einni vinsælustu flugleitarsíðunni vestanhafs, þá hefur síðastliðið ár orðið hátt í þreföldun (+162%) í fjölda leita eftir flugi yfir hafið með millilendingu á Keflavíkurflugvelli. Hins vegar fást ekki upplýsingar um hversu margar leitirnar hafa verið.

Sjálftengifarþegar taldir tvisvar

Sem fyrr segir hyggst Isavia kanna hversu hátt hlutfall farþega í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eru skiptifarþegar sem þurfa að sækja farangur á milli flugferða og eru þar með taldir sem ferðamenn. Hins vegar koma fram í viðtali Morgunvaktarinnar við Runólf Ágústsson, verkefnastjóra Fluglestarinnar, að kannanir sem fyrirtækið hefur gert, í samstarfi við Gallup og alþjóðlegt samgönguráðgjafafyrirtæki, sýni að í júlí síðastliðnum hafi 5.2% svarenda verið svokallaðar sjálftengifarþegar en hlutfallið hafi verið 2.2% í febrúar 2016. Þessir farþegar eru taldir sem ferðamenn þó þeir hafi ekki farið út úr flugstöðinni. Hins vegar ber að hafa í huga að vægi þessara farþega er í raun tvöfalt þar sem þeir eru taldir þegar þeir fljúga út og aftur á heimleiðinni, ef þeir millilenda hér landi í bæði skiptin. Miðað við niðurstöður könnunar Fluglestarinnar þá hafa um 12 þúsund farþegar verið taldir sem ferðamenn í júlí í fyrra þó þeir hafi aldrei yfirgefið Leifsstöð en samtals voru ferðamenn í þeim mánuði 236 þúsund talsins. Í febrúar síðastliðnum var fjöldi þessara farþega rúmlega 3 þúsund. Hins vegar má í raun tvöfalda þessar tölur ef gengið er út frá því að bróðurpartur þessara farþega fljúgi báðar leiðir í gegnum Keflavíkurflugvöll. 
Ef hlutfall sjálfskiptifarþega yfir sumarmánuðina þrjá í fyrra hefur verið 5.2% og 2.2% aðra mánuði ársins þá nam fjöldinn um 59 þúsund ferðamönnum í fyrra þegar hingað komu um 1,8 milljónir ferðamanna. Fjöldinn hefur hins vegar numið um 100 þúsund farþegum ef litið er til þess að þessir farþegar fá tvöfalt vægi í talningunni. Hafa ber í huga að þessir útreikningar eru aðeins byggðir á könnun Fluglestarinnar í júlí í fyrra og í nýliðnum febrúar og heimfærðir upp á allt síðasta ár.