Icelandair lokar söluskrifstofum í Helsinki, Ósló og Stokkhólmi

icelandair 767 757

Sex starfsmönnum sagt upp og allt sölustarf flugfélagsins á hinum Norðurlöndunum flutt til Kaupmannahafnar. Sex starfsmönnum sagt upp og allt sölustarf flugfélagsins flutt til Kaupmannahafnar.  
Starfsemi söluskrifstofa Icelandair á hinum Norðurlöndunum verður sameinuð í Kaupmannahöfn og svæðiskrifstofunum í Ósló, Stokkhólmi og Helsinki lokað. Þetta er hluti af þriggja milljarða sparnaðaraðgerðum flugfélagsins samkvæmt frétt danska ferðaritsins Checkin. Þar er haft eftir Guðjóni Arngrímssyni, upplýsingafulltrúa Icelandair, að sex starfsmönnum hafi verið sagt upp vegna þessara breytinga og hér eftir muni sölustjórar félagsins í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi vinna heiman frá sér en fá stuðning frá söluskrifstofunni í Kaupmannahöfn og höfuðstöðvum félagsins á Íslandi.

Heimamarkaðurinn stækkar en vegur ekki eins þungt

Guðjón segir jafnframt í svari til Check-in að vægi lykilmarkaða Icelandair hafi breyst síðustu ár og að mesti vöxturinn hafi átt sér stað í Norður-Ameríku. Og samkvæmt uppgjöri Icelandair fyrir fyrsta fjórðung ársins þá stendur flugið til Norður-Ameríku undir um 56 prósent af öllu sætaframboði félagsins og hefur hlutfallið farið hækkandi síðustu ár. Í ár bætir félagið við tveimur áfangastastöðum vestahafs, Philadelphia og Tampa.
Sem dæmi um breytingarnar sem hafa orðið á milli markaða hjá Icelandair þá hefur vægi þess íslenska dregist saman jafnvel þó Íslendingar ferðist meira nú en áður líkt og Túristi greindi frá nýverið. Árið 2007 komu 512 þúsund farþegar Icelandair frá Íslandi en sá hópur taldi 478 þúsund farþega í fyrra. Íslensku farþegunum hefur því fækkað en á sama tíma hefur heildarfarþegafjöldinn hjá Icelandair aukist um rúmlega tvær milljónir. Skýringin á þessum breytingum liggur ekki aðeins hröðum vexti Icelandair og litlum heimamarkaði. Aukin samkeppni í flugi til og frá landinu vegur líka þungt en til samanburðar buðu aðeins Icelandair og Iceland Express upp á flug héðan allt árið um kring árið 2007. Í dag er félögin 12 talsins og fleiri bætast við á sumrin.